Ekkert vit er í því fyrir Evrópska seðlabankann að kaupa ríkisskuldabréf Spánar og Ítalíu að mati Lucs Coenes, seðlabankastjóra Belgíu. Slíkt er aðeins til þess fallið að taka þrýstinginn af þarlendum stjórnmálamönnum að grípa til aðgerða til þess að koma efnahagsmálum landanna í samt lag.
Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag og er þar vitnað í viðtöl við Coene í belgísku dagblöðunum De Tijd og L'Echo. Ennfremur er haft eftir seðlabankastjóranum að kaup Evrópska seðlabankans á skuldabréfum Spánar og Ítalíu veiki stöðu bankans. Það yrði aðeins til þess að bankinn tæki ábyrgð á öllum opinberum skuldum Spánar og Ítalíu.
„Við höfum ekki gleymt því sem gerðist í ágúst á síðasta ári. Við keyptum ítölsk skuldabréf og strax á eftir hljóp ítalska ríkisstjórnin frá skuldbindingum sínum,“ segir Coene. „Niðurstaðan er skýr. Þegar þrýstingur frá mörkuðunum er fjarlægður þá er þrýstingurinn á stjórnmálamennina til þess að grípa til aðgerða líka fjarlægður.“