Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 19,2 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins að því er fram kemur í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs frá janúar til júní. Er þetta lækkun úr 29,7 milljörðum á sama tíma í fyrra og segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að þetta sé „betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum þar sem gert var ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 46,1 ma.kr. Hluti af því fráviki skýrist með því að raundreifing útgjalda hefur verið önnur en gert var ráð fyrir. Inni í heimildum er búið að taka tillit til fjárheimildastöðu frá fyrra ári.“
Tekjur reyndust 37,8 milljörðum hærri en í fyrra á meðan gjöldin jukust um 19,4 milljarða milli ára. Miðað við áætlanir hækkuðu innheimtar tekjur um 17,6% milli ára og var aukningin 9,7% yfir tekjuáætlun fjárlaga.
„Þótt innheimtan sé vissulega sterk má að hluta rekja þetta mikla frávik til þess að
arðgreiðslur innheimtust fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Samanlögð skil launagreiðenda á bæði tekjuskatti og útsvari jukust um tæplega 15% á milli ára og því ljóst að skattstofn tekjuskatts hefur styrkst umtalsvert á undanförnum mánuðum, sem að hluta má rekja til kjarasamninga sem tóku gildi á síðastliðnu ári. Hluta fráviksins má einnig rekja til meiri úttekta séreignarsparnaðar en gert var ráð fyrir.“
Fjármagnstekjuskattur dróst aftur á móti mikið saman, eða um 24% og nam 16 milljörðum. Er það 1,5 milljörðum undir áætlun. Þegar einstaka útgjaldaliðir eru skoðaðir kemur í ljós að aukning er í þeim flestum ef frá eru skilin varnarmál og húsnæðis-, skipulags- og veitumál, en báðir þessir flokkar telja aðeins 500 milljónir samtals. Mest munar um mikla hækkun vaxtagjalda sem fara upp um tæpa 9 milljarða milli tímabila, eða um 23%.