Enginn skattur á hesta-, sleða- og rútuferðir

Enginn virðisauki er greiddur af skipulögðum ferðum á staði eins …
Enginn virðisauki er greiddur af skipulögðum ferðum á staði eins og Gullfoss. Rax / Ragnar Axelsson

Í kjölfar ummæla fjármálaráðherra um að kominn sé tími til að afnema þann afslátt sem hótel- og gistiþjónustan hefur notið undanfarin ár hafa margir aðilar í ferðaiðnaðinum risið upp og mótmælt því og sagt að hærri skattur muni leiða til lægri tekna fyrir greinina og ríkissjóð. Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent á að flest lönd Evrópu eru með gistingu í lægra þrepi virðisaukaskattsins og því geti ekki verið um ríkisstyrk að ræða. 

Aðilar innan gistiþjónustunnar hafa haft samband við mbl.is í kjölfar ummæla fjármálaráðherra og bent á að meðan Oddný Harðardóttir tali um að gistiþjónustan sé á ríkisstyrkjum vegna lægri skattaþreps, sé ekkert horft til þeirra innan ferðaþjónustunnar sem bjóða upp á dagsferðir fyrir ferðamenn. Segja þeir slíka þjónustu hafa verið undanþegna virðisaukaskatti í langan tíma og að ekki sé talað um ríkisstyrki í því samhengi.

Stór hluti ferðaþjónustunnar undanþegin virðisauka

Steinþór Haraldsson, skattstjóri á Skattstofu Suðurlandsumdæmis, staðfesti í samtali við mbl.is að skipulagðar ferðir með leiðsögn farastjóra væru undanþegnar virðisaukaskatti. Undir þetta falla t.d. allar sleða-, hesta-, fjórhjóla- og rútuferðir. 

Í skýrsla sem unnin var af Ferðamálastofu fyrir samgönguráðuneytið er gerður samanburður á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu milli Norðurlandanna og þar eru flokkarnir hópferðabifreiðar og ferðaþjónusta sögð vera með 0%. Það má því ætla að t.d. hvalaskoðunarferðir og langar gönguferðir um hálendið með leiðsögumanni séu einnig undanþegin virðisaukanum.

Viðmælandi mbl.is sagði að mikil umræða hefði farið fram innan ferðamannaiðnaðarins vegna þessa mála og lengi verið bent á að ósanngjarnt væri að gisting bæri hærri skatta en almenn þjónusta við ferðamenn. Sagði hann óeðlilegt að þegar fara ætti í að draga skatt úr þessum geira væri ávallt farið beint í gistiaðilana, en horft framhjá þeim sem bjóði uppá ferðir og afþreyingu. Nærtækast væri að benda á gistináttaskattinn sem var samþykktur í fyrra og tók gildi í byrjun þessa árs, en þá var settur 100 krónu skattur á hverja selda gistináttaeiningu. Taldi hann réttlátt að öll ferðaþjónusta sitji við sama borð með hóflegum álögum, en að ekki komi til rothöggs fyrir gistiþjónustna.

Flókið kerfi

Virðisaukakerfið fyrir þjónustuaðila ferðamanna hérlendis getur verið nokkuð snúið og sem dæmi þá getur reikningur innifalið þrjá virðisaukaflokka. Eins og nefnt hefur verið hér að ofan er skatturinn á ferðaþjónustu, að undanskilinni gistingu, 0%. Gisting og matur ber 7% skatt ef ekki kemur til hækkunar og svo er áfengi og önnur vara í almenna flokkinum sem ber 25,5% virðisauka. Önnur undanþága á virðisauka sem hefur komið ferðaþjónustunni nokkuð vel er í tengslum við laxveiði, en þar sem um er að ræða leigu á landi bera laxveiðileyfi engan virðisaukaskatt.

Stór hluti þeirra sem fara gullna hringinn fara í skipulögðum …
Stór hluti þeirra sem fara gullna hringinn fara í skipulögðum ferðum. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK