Svartsýni um afdrif evrunnar fer vaxandi og fjárfestar, bankar og fyrirtæki gera nú ráð fyrir því í áætlunum að myntsamstarfið gæti liðast í sundur. Í fréttaskýringu í nýjasta tölublaði vikuritsins Der Spiegel er fjallað um að fjárfestar, bankar og fyrirtæki reyni nú að tryggja sig gagnvart hruni evrunnar og ýti þar með undir líkurnar á að það gerist.
Þar segir að taugaveiklunin fari vaxandi vegna þess að stjórnmálaleiðtogum evruríkjanna hafi ekki tekist að leysa úr vandanum. Þrátt fyrir allt þeirra erfiði sé staða Grikklands vonlaus og Spánn standi á brauðfótum auk þess sem ekki muni koma fram fyrr en í september hvort evrópski björgunarsjóðurinn standist yfir höfuð þýsku stjórnarskrána.
Óánægja fer vaxandi beggja vegna borðsins, bæði hjá þeim, sem þurfa hjálp, og þeim, sem veita hana. Markus Söder, fjármálaráðherra í Bæjaralandi af hálfu CSU, systurflokks kristilegra demókrata, krefst þess opinberlega að Grikkjum verði vísað úr evrusvæðinu fyrir áramót. Yfirlýsing Söders fór fyrir brjóstið á bæði stjórnendum fyrirtækja og forustumönnum stéttarfélaga í Þýskalandi. Samtök vinnuveitenda segja að slíkur málflutningur þjóni þeim tilgangi einum að auka óvissu á mörkuðum.
Deilurnar um leiðir út úr evrukreppunni ýta greinilega undir titring. Thomas Mayer, fyrrverandi yfirhagfræðingur hjá Deutsche Bank, segir í Spiegel að bankar og fyrirtæki reyni nú í vaxandi mæli að fjármagna sig heima fyrir og draga úr áhættu í kreppulöndunum í suðri. Dregið hefur úr flæði peninga yfir landamæri vegna þess að bankar óttast að verða fyrir tapi. Samkvæmt upplýsingum frá seðlabanka Evrópu hafa lán milli fjármálafyrirtækja minnkað verulega, sérstaklega síðan í fyrrasumar. Í júní höfðu slík millibankaviðskipti ekki verið minni síðan fjármálakreppan hófst 2007.
Bankarnir hafa ekki aðeins dregið úr lánum til fyrirtækja og fjármálastofnana. Þeir hafa meira að segja sett þak á lán til eigin dótturfyrirtækja. Í Der Spiegel kemur fram að Commerzbank og Deutsche Bank láti útibú sín á Spáni og Ítalíu leita á náðir Evrópska seðlabankans. Sjálfir geyma þeir síðan varasjóði sína á reikningum í seðlabankanum.
Ekki er eingöngu við bankana að sakast um þessa þróun. Eftirlitsstofnanir hafa einnig ýtt undir hana með kröfum um að bankar dragi úr viðskiptum, einkum í útlöndum, til að styrkja eiginfjárstöðu sína. Þær gera einnig kröfur um að starfsemi banka í hverju landi fyrir sig geti staðið á eigin fótum.
Mayer bendir á að vegna þess að einkafjármagn sé hætt að flæða milli landa hafi seðlabankar hlaupið í skarðið og fyrir vikið hafi áhættan samfara því að evran láti undan verið flutt yfir á skattgreiðendur.
„Til lengdar er hins vegar ekki hægt að reka myntbandalagið án einkafjárfesta, því yrði þá aðeins haldið gangandi með handafli,“ segir Mayer.
Fyrirtæki eru einnig orðin treg til athafna í Evrópu. Olíufélagið Shell tilkynnti í upphafi liðinnar viku að vilji félagsins til að taka áhættu í Evrópu hefði „breyst“. Félagið, sem á 17 milljarða dollara í sjóðum, ætlar frekar að fjárfesta í bandarískum ríkisskuldabréfum eða dollurum.
Fyrir um ári hættu bandarískir peningamarkaðssjóðir mikið til að leggja inn fé hjá evrópskum bönkum og margir fjárfestar og fyrirtæki hafa farið að dæmi þeirra.
Þá hafa vogunarsjóðir jafnvel tekið stöðu gegn evrunni. Gengi evrunnar hefur hins vegar ekki endurspeglað áhyggjur fjárfesta. Ástæðan fyrir því að evran hefur ekki fallið mikið ber styrk hennar ekki vitni. Stórir fjárfestar í Asíu og annars staðar hafa ekki mikla trú á dollaranum heldur vegna skuldavanda Bandaríkjanna. „Það ríkir nokkurs konar ógnarjafnvægi,“ segir ónefndur fjárfestingarbankamaður í Frankfurt við Der Spiegel. Annar viðmælandi blaðsins bendir hins vegar á að sú staða geti breyst því að það sé alltaf betra að hafa fjárfest í veikum gjaldmiðli, en gjaldmiðli þar sem grundvöllurinn sé í hættu.
Samkvæmt nýrri úttekt fyrirtækisins PricewaterhouseCoopers nema útistandandi lán, sem evrópskir bankar munu sennilega aldrei fá endurgreidd, nú rúmlega billjón evrum og hafa tvöfaldast frá því að kreppan skall á 2008.
Í kreppulöndunum Grikklandi, Ítalíu og Spáni eru þessar eitruðu eignir helmingur útistandandi lána bankanna. Í Grikklandi hafa þær hækkað um 50% milli ára, 37% á Ítalíu og 23% á Spáni.
Venjan er sú að fjárfestar kaupa kröfur af þessum toga af bönkunum á afslætti í þeirri von að með betri tíð rætist úr heimtum. Nú ber svo mikið í milli verðhugmynda fjárfesta og banka að eitruðu kröfurnar seljast ekki, segir í úttektinni, sem birt var í gær.