„Ísland verður aldrei ódýrt“

Landmannalaugar er einn þeirra staða á landinu sem eru orðinn …
Landmannalaugar er einn þeirra staða á landinu sem eru orðinn mjög vinsæll hjá ferðamönnum. mbl.is/Rax

„Við þurf­um að velja þá staði sem eiga að vera aðgengi­leg­ir öll­um allt árið um kring. Við þurf­um að gera þá þannig úr garði að þeir anni mik­illi um­ferð í staðinn fyr­ir að dreifa um­ferðinni stefnu­laust,“ seg­ir Elín Sig­ur­veig Sig­urðardótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Íslenskra fjalla­leiðsögu­manna. Hún tel­ur að mik­il sér­hæf­ing í ferðaþjón­ustu sé af hinu góða og muni skila meiri tekj­um. Í sam­tali við mbl.is fór Elín yfir þróun fyr­ir­tæk­is­ins og sína sýn á ferðaþjón­ustu hér­lend­is.

Mik­il­vægi sér­hæf­ing­ar í ferðaþjón­ustu

Í gær var hald­inn fund­ur af því til­efni að 10 ár voru liðin frá út­skrift fyrstu nem­enda úr MBA-námi frá viðskipta­deild Há­skóla Íslands. Mál­efni fund­ar­ins var „Mik­il­vægi sér­hæf­ing­ar í ferðaþjón­ustu og hvaða þýðingu vaxt­ar­brodd­ar í sér­hæfðri starf­semi hafa fyr­ir ferðaþjón­ust­una í heild“. Elín var ein þeirra sem fluttu er­indi og talaði um mik­il­vægi þess að bjóða upp á framúrsk­ar­andi vöru og þjón­ustu með því að sér­hæfa sig og geta þannig fengið hærri fram­legð.

Fyr­ir­tækið Íslensk­ir fjalla­leiðsögu­menn var stofnað 1994 og hóf strax að bjóða upp á bak­poka­ferðir og jökla­göng­ur í kring­um Skafta­fell. Fyrsti og stærsti viðskipta­vin­ur fé­lags­ins var frönsk ferðaskrif­stofa og síðan þá hef­ur fyr­ir­tækið öðlast mikla reynslu og þekk­ingu á því að þjón­usta þá. Seg­ir Elín að það að þekkja venj­ur og menn­ingu viðskipta­vin­anna geti skipt heil­miklu máli og nefn­ir í því sam­hengi að þegar byrjað var að þjón­usta breska og am­er­íska ferðamenn hafi þau ætlað að nota sama mat­seðil fyr­ir þá og notaður var fyr­ir frönsku ferðamenn­ina. All­ir gæðaost­arn­ir sem voru vin­sæl­ir í fyrri ferðum féllu ekki í kramið hjá bresku viðskipta­vin­un­um og komu all­ir til baka með at­huga­semd­um um furðulegt ferðanesti. 

Aukið ör­yggi og staðlaðar ferðir

Í kjöl­far þess að ferðamönn­um hafi fjölgað mikið hafi orðið stig­vax­andi nauðsyn þess að sam­hæfa fram­kvæmd­ir og auka ör­yggi í ferðum. Hún viður­kenn­ir að farið hafi verið of geyst af stað í upp­hafi. „Við höfðum ekki hug­mynd um hvað við vor­um að gera fyrstu árin. Fór­um of bratt og of hratt.“ Þetta hafi aft­ur á móti verið tekið föst­um tök­um og ör­ygg­is­mál og þjálf­un sett í for­gang. Á síðasta ára­tug hafi þannig byggst upp mik­il þekk­ing og reynsla hjá fyr­ir­tæk­inu eft­ir að hafa fengið er­lenda leiðbein­end­ur hingað til lands.

Elín seg­ir að í dag hafi fyr­ir­tækið byggt upp staðlaðar ferðir, sem sé nauðsyn­legt í þess­um geira. Hún legg­ur þó áherslu á að þó hug­mynd­in um staðlaða vöru hljómi óspenn­andi þurfi hún alls ekki að vera það. Þegar verið er að af­greiða mörg þúsund ein­stak­linga í svona ferðir skipti ör­yggið höfuðmáli og ef ekki sé farið eft­ir ákveðnum atriðum gangi þetta ekki upp til lengd­ar. „Stöðlun­in geng­ur út á ör­yggi farþega og að þeir fái há­marks upp­lif­un. Upp­lif­un þeirra er mun sterk­ari en okk­ar og þó hún virki ekki eins brjálæðis­lega spenn­andi fyr­ir fólk sem lif­ir í þess­um geira, þá er viðskipta­vin­ur­inn að leita að ör­uggri en æv­in­týra­legri upp­lif­un og hann fær sitt adrenalínkikk út úr þess­um ferðum.“

„Ísland verður aldrei ódýrt“

Aðspurð hvaða lönd hún sjái sem mestu vaxt­ar­sprot­ana í æv­in­týra­ferðum eins og þau bjóða upp á bend­ir Elín á Am­er­íku. „Á síðustu miss­er­um hef­ur Am­er­íku­markaður­inn verið að koma sterk­ur inn og farið vax­andi, en síðan þurf­um við að horfa bet­ur til fjar­markaðanna, sem við höf­um ekki gert hingað til“ og á þar t.d. við Asíu­markaðinn, Bras­il­íu og Mexí­kó. Hún tel­ur þó sér­hæf­ingu fyr­ir ákveðin markaðssvæði, eins og þau hafi gert með Frakk­land, mik­il­væga og nauðsyn­lega til að halda uppi ákveðnum gæðum sem auka verðmæti ferðanna.

Þegar komið er að spurn­ing­unni um fjölda ferðamanna og hvort Ísland eigi að stefna frek­ar að efnaðri ferðamönn­um seg­ir Elín þetta ekki vera ein­falt mál. „Við þurf­um að vanda okk­ur, en ég tel nauðsyn­legt að horfa á gæði og fag­mennsku. Ísland verður aldrei ódýrt og við erum ekki að ná til hóps­ins sem hef­ur allra minnst milli hand­anna.“ Hægt sé að hækka verð á ferðum með auk­inni þekk­ingu og meiri gæðum sem leiði til þess að efnaðri ein­stak­ling­ar komi hingað frek­ar.

Vill ekki dreifa um­ferðinni stefnu­laust

Elín tel­ur aft­ur á móti ekki að ferðamanna­fjöldi hér­lend­is sé orðinn of mik­ill. „Ég tel að við eig­um að stefna á fjölg­un ferðamanna, en við eig­um ekki að gera það hratt og við eig­um ekki að setja markið á millj­ón ferðamenn eft­ir þrjú ár. Við eig­um að fara okk­ur hægt og byggja upp innviði. Ef við för­um of hratt, þá náum við ekki að anna því þannig að vel sé og þá hryn­ur orðsporið og þá erum við búin að missa þenn­an vel­borg­andi markað frá okk­ur.“

Mik­il um­ferð hef­ur verið á mörg ferðamanna­svæði hér­lend­is síðustu árin og marg­ir hafa talað um að fara þurfi í rót­tæk­ar breyt­ing­ar á svæðum, jafn­vel loka þeim og passa upp á ágang ferðamanna á há­lend­inu og við vin­sæl­ustu staðina. Elín seg­ir að það þurfi að velja ákveðna staði sem verði vin­sæl­ir ferðamannastaðir. „Við þurf­um að gera þá staði þannig úr garði að þeir anni mik­illi um­ferð í staðinn fyr­ir að dreifa um­ferðinni stefnu­laust. Þessa staði á að byggja upp og þeir þurfa að geta annað mik­illi um­ferð allt árið.“ Elín vill aft­ur á móti að aðrir staðir fái að vera villt­ir og ósnortn­ir þannig að hægt sé að njóta óbyggðanna. Hún tek­ur þó fram að viss­ir staðir geti jafn­vel verið það viðkvæm­ir að nauðsyn sé að tak­marka fjölda ferðamanna, en það sé þó ekki slæmt í sjálfu sér og hafa vin­sæld­ir slíkra staða er­lend­is t.d. oft auk­ist þegar tak­mörk­un­um hef­ur verið komið á.

Elín telur að passa verði að staðir haldi enn áhrifamætti …
Elín tel­ur að passa verði að staðir haldi enn áhrifa­mætti sín­um sem ósnortn­ir, en velja þurfi ákveðna staði og byggja upp sem ferðamannastaði. Elín Sig­urðardótt­ir
Ferðamenn streyma í bílförmum á suma staði eins og til …
Ferðamenn streyma í bíl­förm­um á suma staði eins og til Geys­is í Hauka­dal. Rax / Ragn­ar Ax­els­son
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK