Seðlabanki Íslands segir í nýjasta hefti Peningamála að gert sé ráð fyrir að árstíðarleiðrétt atvinnuleysi lækki niður í 5% á síðasta fjórðungi næsta árs, en í dag stendur það í 5,8%. Spá fyrir árið í ár hefur einnig lækkað og er nú gert ráð fyrir að það lækki um 0,4 prósentur miðað við fyrri mælingu og verði 5,9%. Skýrist spáin af betri horfum og betri atvinnuþátttöku en gert hafði verið ráð fyrir.
Kemur fram að fjöldi ársverka sé óbreyttur, en aukning í fjölda starfandi fólks um 1,2% skýrist með færri vinnustundum á hvern einstakling. Hlutastörf hafa aukist nokkuð og fjölgaði vinnustundum þar um 0,8%. Ársverk fyrir yngsta aldurshópinn, 16 til 24 ára, fækkaði og dró niður aukningu upp á 0,6% hjá aldurshópnum yfir 25 ára.
Hækkun launa var lítillega meiri á öðrum fjórðungi ársins en áætlað var í síðustu spá. Eins og þá er ekki gert ráð fyrir að komi til umtalsverðrar viðbótarhækkunar launa við endurskoðun kjarasamninga um næstu áramót. Horfur um launaþróun hafa því lítið breyst og gert er ráð fyrir að launakostnaður á framleidda einingu þróist með svipuðum hætti á spátímanum og ætlað var í síðustu spá. Reiknað er með að hann aukist um 5% í ár, en að vöxtur hans verði í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans frá og með næsta ári.