Japanska tæknifyrirtækið Sony ætlar að fækka starfsmönnum í farsímadeild fyrirtækisins um 15% og flytja höfuðstöðvar deildarinnar, Sony Mobile Communications, til Tókýó frá Svíþjóð.
Alls verða eitt þúsund færri starfsmenn hjá deildinni eftir uppsagnir en sex mánuðir eru síðan Sony keypti hlut sænska farsímafyrirtækisins Ericssons í Sony Ericsson sem fyrirtækin tvö stofnuðu árið 2001. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið brösuglega en illa gekk að koma snjallsíma á markað og keppinautarnir Apple og Samsung haft betur í baráttunni um kaupendur.
Samkvæmt upplýsingum frá Sony verður fyrirhuguðum breytingum lokið árið 2014 en ætlunin er að draga umtalsvert úr rekstrarkostnaði og auka vöxt.