Vátryggingarfélag Íslands, VÍS, hefur tekið í notkun nýtt merki sem er byggt á grunni gamla merkisins en einfaldað með einum lit. Í tilkynningu frá VÍS kemur fram að fyrirtækið hafi verið í stefnumótunarvinnu og að í samstarfi við starfsfólk hafi framtíðarsýn fyrirtækisins til næstu fimm ára verið mótuð og að nýtt merki sé hluti af þeirri breytingu sem unnið er að.
Á næstu vikum verður skiltum skipt út auk þess sem markaðs- og prentefni verður endurgert. Gamalt efni sem ekki verður unnt að endurnýta hefur verið gefið til góðgerðarsamtaka, líknarfélaga og leikskóla. Hönnuður nýja merkisins er Hjörvar Harðarson á auglýsingastofunni ENNEMM.