Vantar íbúðir fyrir næstu árganga

Samtök iðnaðarins telja þörf á að hafist verði handa við …
Samtök iðnaðarins telja þörf á að hafist verði handa við nýbyggingar á næstunni. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt talningu hjá Samtökum iðnaðarins eru aðeins 545 íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fokheldar eða lengra komnar. Af þeim eru ekki nema 192 íbúðir íbúðarhæfar (á byggingarstigi 6 og 7) og hefur þeim fækkað um 292 á innan við ári. Telja samtökin þetta vera skýr skilaboð um að þörf sé á því að fara í frekari nýbyggingar til að forðast vöntun á húsnæði og mögulega þenslu til lengri tíma.

Í greinargerð sem fylgir talningunni kemur fram að stórir árgangar af ungu fólki séu á leiðinni og því þurfi að bregðast við þeim skorti sem gæti komið upp. „Miðað við fjölda íbúða og byggingarstig telja samtökin ótvírætt að þörf sé á íbúðum fyrir „fyrstu íbúða kaupendur“. Þ.e. smærri og ódýrari eignir, án bílakjallara svo dæmi sé tekið. Líta verður til þess að sala á húsnæði hefur verið dræm frá hruni og margir sem hafa haldið að sér höndum eru nú tilbúnir að kaupa, einnig eru stórir árgangar að koma nýir inn á markaðinn.“

Þegar hvert sveitarfélag er skoðað kemur í ljós að flestar íbúðir í fjölbýli eru í byggingu í Reykjavík og Hafnarfirði, en rúmlega 300 íbúðir eru í byggingu á hvorum stað. Í Reykjavík eru þó fleiri íbúðir komnar yfir fjórða byggingarstig og því taldar fokheldar, meðan fleiri íbúðir í Hafnarfirði eru á byggingarstigi 2 og 3. Í Kópavogi eru um 200 fjölbýlisíbúðir í byggingu, en í öðrum sveitarfélögum eru 121 fjölbýlisíbúðir í byggingu.

Nokkuð færri rað- og parhús eru í byggingu, en samtals eru 216 eignir í þessum flokki í byggingu, en stærstur hluti þeirra er kominn yfir byggingarstig 4. Flestar eignirnar er að finna í Reykjavík, Mosfellsbæ og Hafnarfirði. Rúmlega 100 einbýlishús eru í byggingu og eru þau flest í Kópavogi, en einnig er töluverður fjöldi í Garðabæ og Hafnarfirði.

Samtök iðnaðarins vara við að fjöldi nýbygginga sé of lítill og að mikil þörf sé á að fara út í meiri fjárfestingu til að verða við kröfu markaðarins um húsnæði. „Talið er að árlega þurfi um 1.500 nýjar íbúðir inn á markaðinn og eru íbúðir í byggingu því innan við áætlaða ársþörf. Þá þarf að hafa í huga að byggingartími íbúðar í fjölbýli er 18-24 mánuðir þannig að ljóst er að íbúðir í byggingu eru langt frá því að fullnægja þörf markaðarins.“

Mbl.is hefur áður fjallað um áhyggjur samtakanna af þróun byggingamarkaðarins og vilja borgaryfirvalda til að auka við nýbyggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK