Ákvörðun um aðstoð ríkisins við Íbúðalánasjóð verður tekin seinna á þessu ári og sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í samtali við mbl.is að vinnu vegna málsins yrði lokið áður en fjárlög verða kynnt í haust. Íbúðalánasjóður, velferðar- og fjármálaráðuneyti hafa fundað saman og var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær að samþykkja starfshóp til að leggja mat á stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs.
Segir í yfirlýsingu frá stjórnvöldum að tryggt verði að eiginfjárhlutfall sjóðsins nái að lágmarki 5% af áhættugrunni í samræmi við ákvæði reglugerðar um sjóðinn, en til þess þarf 14,4 milljarða aukafjárveitingu að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins. Aðspurður segir Guðbjartur að nákvæm dagsetning sé ekki komin varðandi niðurstöðu málsins en allt verði sett á fullt þegar hann komi til landsins, en hann er staddur erlendis sem stendur. Sjóðurinn hefur ítrekað þurft á aukafjárveitingu að halda en ríkisstjórnin stefnir á að tryggja stöðuna til lengri tíma með aðgerðum í þetta skiptið. Segir Guðbjartur að enn sé verið að hreinsa upp eftir hrunið og menn þurfi að taka afleiðingum þess.