Útgerðir í Eyjum vilja kaupa

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. mbl.is

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafi sett sig í sambandi við bæjaryfirvöld og lýst áhuga kaupa aflaheimildir í eigu Bergs-Hugins. Bærinn hefur ákveðið að nýta sér ákvæða laga um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um forkaupsrétt sveitarfélaga þegar skip og kvóti er seldur út úr sveitarfélagi.

Aflaheimildir sem Bergur-Huginn hefur yfir að ráða nema um 5.000 þorskígildistonnum á yfirstandandi fiskveiðiári.

Í lögum um stjórn fiskveiða segir: „Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt.“

„Við teljum alveg ljóst að vilji löggjafans með þessu ákvæði var að sveitarfélögin og fyrirtæki á atvinnusvæðinu gætu gripið inn í þegar aflaheimildir væru að fara út úr sveitarfélaginu þrátt fyrir að vilji væri til að halda áfram útgerð þar. Í lögunum er talað um skip og kvóta, en í þessu tilviki er verið að selja hlutafélag sem er með heimilisfesti í Vestmannaeyjum. Sumir telja að þar með eigi þetta ákvæði ekki við. En við ætlum, ef með þarf, að láta reyna á þetta fyrir dómstólum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Vissu ekki af sölunni

Elliði sagði auðvitað best ef Síldarvinnslan og Bergur-Huginn myndu virða þann rétt sem sveitarfélagið hefði samkvæmt lögum. „Við vissum fyrst af þessari sölu í gær, nánast um leið og allir aðrir. Þetta er ekki eins og löggjafinn hugsaði þetta. Mér vitanlega hafa sveitarfélögin ekki áður látið á þetta reyna og mér finnst tími til kominn að þau geri það.“

Elliði sagði að samkvæmt núgildandi lögum um stjórn fiskveiða bæri sveitarfélögum sem kaupa kvóta að bjóða hann út. „Nú þegar hafa fyrirtæki í Vestmannaeyjum sett sig í sambandi við okkur og lýst áhuga á að koma að þessu ef af verður. Ég tek fram að það er ekki stefna Vestmannaeyjarbæjar að fara í bæjarútgerð, heldur eingöngu að þessi 5.000 tonn af þorskígildum verði áfram í Vestmannaeyjum.“

Elliði tók fram að hann hefði ekkert út á Síldarvinnsluna að setja. Þetta væri fyrirtæki sem væri í eðlilegum viðskiptum. „Í allri umræðu sem staðið hefur yfir um fiskveiðistjórnkerfið hefur gleymst að horfa til þess að í þessum lögum sem við vinnum eftir í dag er þessi varnagli sleginn. Það þarf að virkja þessi lög og látum ekki kvótann flæða óhindrað milli svæða. Það þarf ekki ný lög. Við erum með lög sem taka á þessu.“

Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, fylgist með Vestmannaey VE leggjast við bryggju.
Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, fylgist með Vestmannaey VE leggjast við bryggju.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK