Vestmannaeyjabær hefur birt Síldarvinnslunni og Magnúsi Kristinssyni áskorun um framlagningu forkaupsréttartilboðs vegna sölu Bergs-Hugins ehf. Verði ekki orðið við áskoruninni fyrir kl. 12 á föstudag áskilur Vestmannaeyjabær sér rétt til að höfða mál fyrir dómstólum.
Hinn 30. ágúst sl. var tilkynnt í fjölmiðlum um sölu á Bergi-Hugin ehf., Vestmannaeyjum, til Síldarvinnslunnar hf., Neskaupstað. Um var að ræða sölu á öllum eignarhlutum í félaginu en það er eigandi tveggja fiskiskipa, Bergeyjar VE-544 og Vestmannaeyjar VE-444, og 5.000 þorskígildistonna.
Í 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 segir:
„Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu.
Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt.
Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.“
Með vísan til þessa hefur Vestmannaeyjabær nú á formlegan máta birt Síldarvinnslunni hf. og Magnúsi Kristinssyni áskorun um að leggja fram forkaupsréttartilboð þar sem söluverð og aðrir skilmálar eru tilgreindir á tæmandi hátt. Þá er og skorað á aðila að leggja fram öll gögn sem máli kunna að skipta til að Vestmannaeyjabær geti tekið afstöðu til forkaupsréttartilboðsins innan fjögurra vikna, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
Verði Síldarvinnslan hf. og Magnús Kristinsson ekki við þessari áskorun fyrir kl. 12:00, föstudaginn 7. september nk., áskilur Vestmannaeyjabær sér rétt, sem forkaupsréttarhafa samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, að höfða mál fyrir dómstólum á grundvelli 5. mgr. 12. gr. sömu laga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.