Mikil þörf er á því að Ísland taki sig til og setji löggjöf um vernd landfræðilegra merkinga á Íslandi. Þetta segir Einar Karl Haraldsson, höfundur skýrslu um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun. Segir hann að íslensk vörumerki eins og skyr eigi á hættu að vera tekin upp af öðrum sem geri nafnið að almennt lýsandi heiti, „alþjóðlegir framleiðendur gætu tekið skyrið af okkur með að taka upp nafnið og sett á eigin framleiðslu“. Með því geti íslenskir framleiðendur ekki náð fram neinni aðgreiningu og þá verði erfiðara að auka verðmæti innlendrar vöru.
Á morgunfundi í dag voru helstu niðurstöður skýrslunnar kynntar og bendir skýrsluhöfundur meðal annars á að hann telji það þjóna hagsmunum framleiðenda og neytenda að sett verði löggjöf um vernd landfræðilegra merkinga á Íslandi. Segir hann það geta styrkt stöðu útflutningsafurða og feli í sér viðurkenningu á sérstöðu innlendrar vöru í samkeppni við innfluttar. Það muni einnig hafa góð áhrif á innlenda framleiðslu.
Einar segir að Alþjóða viðskiptastofnunin vinni að því að koma upp heimslista um landfræðilegar merkingar, en að frumforsenda fyrir samningum milli ríkja um vernd landfræðilegra merkinga sé að einhverskonar löghelgað verndarkerfi sé til staðar heima fyrir. Slík vernd er í dag mjög takmörkuð í íslenskum vörumerkjalögum en að öðru leiti ekki sjáanleg í íslenskum lögum.
Til að ítreka þá hagsmuni sem upprunamerkingar hafa bendir Einar á vörumerkið í kringum Parmigiano Reggiano ostana. Þar hafi fáir bændur á Ítalíu sameinast á fyrri hluta 20. aldarinnar og gengið inn í samlag ostaframleiðenda í héraðinu. Þetta hafi skilað því að nafnið Parmesan er bannað á öðrum vörum innan Evrópusambandsins, meðan það er almennt lýsandi orð yfir ákveðna osta í Bandaríkjunum og Ástralíu. Sú vinna sem lögð hefur verið í þróun, kynningu og mótun vörumerkisins er því tryggð, uppruninn staðfestur og verðmæti afurðanna aukið.
Hérlendis hafa sprottið upp 8 mismunandi landshlutamerkingar, en Einar telur mikilvægt að hagsmunagæsla upprunamerkinga verði gerð markvissari með því að koma henni undir einn hatt. Segir hann vöruheiti hérlendis sem komi til greina með upprunamerkingu hafa þróast sem sameiginleg verðmæti framleiðenda á Ísland, bundin hráefnum, framleiðsluaðferðum og staðháttum sem tengjast íslenskum aðstæðum almennt.
Tímabært er að hagsmunaaðilar óski eftir því við stjórnvöld að lögð verði fram drög að lögum um landfræðilega merkingu að mati Einars og staðfesti Sigurgeir Þorgeirsson hjá atvinnumálaráðuneytinu að slík vinna myndi hefjast hjá ráðuneytinu í vikunni. Sagði hann einnig að hagsmunaaðilar yrðu hafðir með í ráðum um hvernig best væri að haga slíkri vinnu.
Einar benti á að í Noregi hefði þessi vinna gengið vel upp og að horfa ætti til þeirra sem fyrirmyndar. Þeir hefðu sett sér lög um upprunamerkingu fyrir 10 árum, svipaða því í Evrópu. Markmiðið hafi verið að auka fjölbreytni og staðbundna framleiðslu. Í dag hafi Norðmenn 19 vöruheiti á lista Evrópusambandsins yfir upprunamerkingar, en Danmörk, Svíþjóð og Finnland hafa samtals innan við 10, það geti því skipt miklu máli hvernig sé staðið að málunum ef Íslendingar vilja bæta ímynd innlendrar matvöru og þar með auka verðmæti hennar.