Gina Rinehart, sem er ríkasta kona í heimi, hefur gagnrýnt efnahagsstefnu ríkisstjórnar Ástralíu, en hún segir að laun í Ástralíu séu of há og samkeppnishæfni landsins sé að minnka.
Rinehart er ríkasta kona heims, en auðæfi hennar eru metin á 29 milljarða Ástralíudali, eða sem samvarar 3.600 milljörðum kr. Hún tók við stjórn námufyrirtækisins Lang Hancock árið 1992 og síðan hefur hún hagnast mikið á ári hverju. Hagnaðurinn nemur um 52 milljónum Ástralíudala á dag, sem þýðir 600 ástralskir dalir (um 75.000 kr.) á hverri einustu sekúndu.
Rinehart tjáir sig sjaldan opinberlega, en hún ávarpaði ráðstefnu námufyrirtækja í Ástralíu fyrir nokkrum dögum og ræddi þar um samkeppnishæfni landsins. Hún sagði að Ástralar yrðu að horfa raunhæft á málin. Þeir væru að dragast aftur úr í samkeppni þjóða. Laun í landinu væru of há þegar horft væri til samkeppnislandanna. „Afríkumenn vilja vinna og þeir eru tilbúnir til að vinna fyrir innan við tvo dollara á dag. Slíkar tölur valda mér áhyggjum varðandi framtíð efnahagslífs í þessu landi.“
Mikil umræða hefur skapast um þessa yfirlýsingu, bæði í Ástralíu og víðar um heim. Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur svarað orðum Rinehart og sagt að stjórnvöld í Ástralíu standi vörð um laun í landinu og það vinnuumhverfi sem þar hafi skapast.
Rinehart er umdeild í Ástralíu. Margir dást að henni, en þeir eru líka margir sem hafa megnustu andstyggð á henni. Rinehart segir meiningu sína hvað sem fólki finnst. Hún skrifaði nýverið blaðagrein þar sem hún sagði að Áströlum myndi farnast betur ef þeir drykkju og reyktu ekki svona mikið. Að undanförnu hafa fjölmiðar fjallað um deilur sem hún á við börn sín um yfirráð yfir fjölskylduauðnum.
Í frétt BBC um ræðu Rinehart segir að námuiðnaðurinn í Ástralíu eigi nú í vaxandi samkeppni við Kínverja. Stjórn Verkamannaflokksins í Ástralíu vilji auka skatta á námufyrirtækin en Rinehart telji að þar sé ríkisstjórnin á rangri braut.