Bankastjórn Seðlabanka Evrópu kynnti í dag áætlanir bankans um stórfelld uppkaup á ríkisskuldabréfum þrátt fyrir andstöðu Þjóðverja. Er talað um stórskotaárás á hendur skuldakreppunni í Evrópu.
Bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi, tekur fram að það sé hins vegar ekki nóg að bankinn grípi til aðgerða því ríkisstjórnir evru-ríkjanna verði að leggja sitt af mörkum.
Draghi vonast til þess að með þessu verði hægt að draga úr lántökukostnaði skuldsettra ríkja sem kvarta sáran undan honum og telja hann ástæðuna fyrir því hversu erfiðlega þeim gengur að komast á rétt ról að nýju.
Svo virðist sem markaðir trúi á fyrirætlun bankans því hlutabréfamarkaðir tóku mikinn kipp upp á við og álag á spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf lækkaði.