Íbúðalánasjóður stefnir að því að stofna leigufélag sem taki um áramót við rekstri um 30-40% af eignum sjóðsins. Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir þessa breytingu nauðsynlega.
Íbúðalánasjóðurinn á í dag um 2.050 íbúðir, en af þeim er 41% í útleigu. Sjóðurinn leysti til sín 501 íbúð til fullnustu krafna á fyrri hluta ársins, en seldi aðeins 58 eignir á sama tíma.
Alþingi veitt Íbúðalánasjóði á síðasta þingi heimild til að stofna leigufélag. Sigurður segir að vinnuhópur sé að vinna að stofnun félagsins. Formleg ákvörðun um að stofna félagið hafi ekki enn verið tekin, en vinnan miði við að félagið taki til starfa um áramót.
„Þegar lánastofnun, eins og Íbúðalánasjóður, þarf að yfirtaka mikið af fasteignum er óraunhæft að selja slíkt safn á stuttum tíma. Það mun taka nokkur ár að selja þessar eignir. Venjulega er þetta gert þannig að eignir sem eru tekjuberandi, þ.e. eignir sem eru í útleigu, eru reknar í nokkur ár þangað til tækifæri gefst til að selja eignasafnið í heilu lagi,“ segir Sigurður.
Sigurður segist gera ráð fyrir að 30-40% af eignum Íbúðalánasjóðs fari í þetta leigufélag. Samhliða munu sjóðurinn halda áfram að selja einstakar eignir og stakar blokkir. Núna eru t.d. blokkir á tveimur stöðum í söluferli.
Íbúðalánasjóður er stærsti lánveitandi til húsnæðis á Íslandi og stærsti lánveitandi til leigufélaga. Sigurður segir óheppilegt að sjóðurinn sé á sama tíma farinn að keppa við viðskiptavini sjóðsins og sé sömuleiðis með hluta lántaka í skuldameðferð. Það fari því betur á því að færa eignir sem eru í leigu í sérstakt félag sem lúti sérstakri stjórn.
Sigurður vonast eftir að það takist að skerpa á rekstrinum með þessum aðskilnaði, en í dag sé Íbúðalánasjóður með alls kyns eignir um allt land, sumar séu í leigu, aðrar ekki hæfar til leigu af ýmsum ástæðum og enn aðrar séu til sölu.
Sigurður segir að stofnun leigufélagsins breyti ekki miklu fyrir leigjendur. Þó megi segja að þegar eignirnar séu komnar inn í leigufélag liggi fyrir stefnumörkun um að þær verði til útleigu til lengri tíma. „Hugsunin með stofnun þessara félags er líka að auka framboð húsnæðis á leigumarkaði. Þeir sem eru að leigja hjá okkur og fara ekki inn í þetta leigufélag vita að þeir eru í skammtímaleigu.“