Um 500 ný heimili í vanskilum

Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Á þessu ári hafa rúmlega 500 ný heimili bæst við á vanskilaskrá Íbúðalánasjóðs. Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að sjóðurinn sé að rannsaka hvers vegna þessi heimili séu í vandræðum, en þau hafi verið í skilum fram að þessu.

Þekkt er að mörg heimili lentu í fjárhagserfiðleikum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Vanskil vegna lána til íbúðarhúsnæðis jukust. Stjórnvöld og lánastofnanir hafa með ýmsum hætti reynt að bregðast við vandanum, t.d. með frystingu lána, 110% leið og greiðsluaðlögun.

Sigurður segir að aðeins um 40 af þessum 500 heimilum hafi farið í 110% leiðina, en um 450 hafi ekki óskað eftir að nýta sér þessi úrræði og hafi ekki sótt eftir aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara. Þetta séu heimili sem voru í skilum með sín lán á árinu 2009 og 2010 og einnig að mestu leyti á síðasta ári. Elstu vanskili þessa hóps séu frá því í október á síðasta ári.

„Viðfangsefni okkar núna er að reyna að skilja betur hvaða hópur þetta er og hver gæti verið skýringin á því hann nær ekki að standa í skilum. Þarna er um að ræða hóp sem hefur verið í lagi, en er núna að lenda í vandræðum. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir þessu, en við viljum reyna að átta okkur á hvort þetta sé eitthvað sem við getum átt von á næstu misserin,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að Íbúðalánasjóður vilji reyna að mæta nýjum vanskilum þeim hætti að þetta verði ekki gömul vanskil, því það sé alltaf erfiðara að fást við þau mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka