Útflutningur frá Kína jókst minna í ágúst en spáð hafði verið. Aukningin er 2,7% sem er minnsti vöxtur í ágústmánuði í þrjú ár. Sérfræðingar óttast samdrátt í efnahagslífi Kína.
Útflutningur frá Kína jókst um 2,7%, en innflutningurinn minnkaði um 2,6%. Ástæðan fyrir því að það er að hægja á efnahagsvextinum í Kína er ekki síst að eftirspurn eftir framleiðsluvörum frá Kína á Vesturlöndum er að minnka. En fleira kemur til. Samdráttur í innflutningi þykir benda til að eftirspurn innanlands sé einnig að minnka.
Stjórnvöld í Kína hafa reynt að auka eftirspurn innanlands til að mæta minni eftirspurn að utan. Neytendur í Kína hafa hins vegar fengið orð fyrir að fara varlega og vera tregir til að skuldsetja sig.
Hagvöxtur í Kína hefur í meira en áratug verið um 9% á ári. Stjórnvöld í Kína höfðu lengi vel áhyggjur af því að þessi vöxtur væri of mikill og að það væri of mikil þensla í efnahagslífinu. Nú hefur hægt á, en nú hafa menn áhyggjur af því að vöxturinn sé að verða of lítill og jafnvel að það verði samdráttur.