Segir bankana vera risaeðlur

Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, á hádegisfundi Félags viðskipta- og …
Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga. Árni Sæberg

Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka, var afdráttarlaus á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka í Hörpunni í dag. Sagði hann að stóru bankarnir þrír væru allt of stórir og ekki í takt við nútímann. Telur hann að aðskilja eigi þessa starfsemi til að draga úr áhættu við að tjón vegna hruns lendi á almenningi og innistæðueigendum og að Ísland eigi að setja fordæmi á alþjóðavísu með því að taka fyrst af skarið. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, töldu aftur á móti slíkt skref ekki vænlegt og sagði Unnur að það gæti fælt erlenda aðila frá íslenskum markaði.

Risaeðlur á Íslandi

Í ræðu sinni benti Pétur á að bankarnir þrír væru enn tvisvar sinnum stærri en landsframleiðsla Íslands og að þeir væru tuttugufalt stærri en stærsta fyrirtækið sem skráð er í Kauphöllina. Sagði hann að þörf væri á „eðlilegu og heilbrigðu bankakerfi sem fólk getur treyst“. Í framhaldinu líkti hann bönkunum við risaeðlur og sagði að stutt væri í að þær yrðu að kjötætum.

Sagði hann rekstrarkostnað þeirra of mikinn og að arðsemi eigin fjár vegna grunnstarfsemi bankanna væri ekki nema 2-4%. Benti hann á að fyrir hrun hefði þetta hlutfall einnig verið lágt og undir markaðsávöxtun. Meðan slík staða væri uppi myndu bankarnir verða áhættusæknari á fjárfestingarbankasviðinu til að ná upp góðri arðsemi og það væri freistingarvandi sem bankarnir stæðu frammi fyrir. Þess skal þó getið að Höskuldur kom á framfæri leiðréttingu og sagði að arðsemin væri nær 12% og því ætti þessi röksemd ekki við. 

Ísland í forystuhlutverki

Pétur vildi að Íslendingar tækju forystu í innleiðingu á lögum um aðskilnað á viðskipta- og fjárfestingarbönkum og sagði að meðan fjárfestingarbankahliðin væri innan við 5%, ætti ekki að vera erfitt að fara þessa leið. Réttast væri að skipta þessu niður þannig að til yrðu ráðgjafafyrirtæki, viðskiptabankar, verðbréfafyrirtæki, fjárfestingarbankar og fjárfestingasjóðir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra innan sama bankans og benti jafnframt á að eins og staðan væri í dag væri mjög erfitt fyrir minni aðila að koma inn á þennan markað meðan bankarnir væru svona stórir.

Unnur taldi aftur á móti mestu skipta að skýrar reglur giltu, svo tjón yrði takmarkað ef illa færi. Hún sagði einnig að margt hefði nú þegar verið gert frá hruni til að draga úr áhættusækni á markaðinum og nefndi sem dæmi lög um kaupaukagreiðslur, reglur um lán með veðum í hluta- og skuldabréfum sem lánað er fyrir og hert eftirlit með stórum áhættufjárfestingum.

Mælir ekki með aðskilnaði

Með forgangi innistæðueiganda segir Unnur að annað vandamál komi upp, en að endurfjármögnun banka verði þannig dýrari þar sem lánveitendur sjái fyrir sér meiri áhættu í að lána bönkunum þegar innistæðueigendur hafi fullan forgangsrétt. Þetta kalli á aukinn kostnað í bankaviðskiptum.

Unnur sagði að Fjármálaeftirlitið mælti ekki með aðskilnaði og benti á aðrar ástæður fyrir því tjóni sem varð í hruninu. „Það tjón sem kröfuhafar íslensku bankanna urðu fyrir við fall þeirra var að verulegu leyti vegna lélegra útlána. Lán höfðu verið veitt með veði í hlutabréfum og skuldabréfum bankanna og tengdra félaga og jafnvel án trygginga. Þessi áhætta yrði enn til staðar eftir aðskilnað og verður ekki eytt nema með virku eftirliti og breytingum á starfsháttum.“

Hún varaði jafnframt við því að Ísland tæki forystu um nýjar reglur á þessum vettvangi og sagði að erlendir bankar gætu eftir sem áður komið á íslenskan markað og komist hjá reglunum og þannig skert samkeppnishæfni íslenskra banka.

Blönduð starfsemi ekki ástæða fyrir hruni

Höskuldur tók undir með Unni varðandi að dregið hefði úr áhættu í fjármálakerfinu og sagði reglur á fjármálamarkaði hérlendis með þeim ströngustu í vestrænum heimi. Hann lagði mikla áherslu á að sami skilningur væri notaður fyrir fjárfestingarbanka og sagði að Pétur legði mun breiðari skilning í það en lögin bjóði upp á. Sagði hann aðalhlutverk fjárfestingarbanka vera að aðstoða ríki, sveitarfélög og fyrirtæki við útgáfu verðbréfa og hafa milligöngu um miðlun þeirra.

Eftir aldamótin sagði Höskuldur að stórir bankar hefðu byrjað í auknum mæli að selja eigin fjármálaafurðir í stað þess að vera milligönguaðili á markaði. Segir hann að rekja megi hrunið frekar til þessara sölu eigin afurða í stað hefðbundinnar fjárfestingarbankastarfsemi. Nefndi hann, eins og Unnur, að margir bankar sem voru sérhæfðir viðskiptabankar, hefðu einnig fallið, svo ekki væri hægt að setja samansemmerki milli þess að bankar færu í þrot og þess að þeir væru með blandaða starfsemi.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á hádegisfundi Félags viðskipta- og …
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga. Árni Sæberg
Fjölmennt var á fundinum
Fjölmennt var á fundinum Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK