Bandarísk yfirvöld hafa verðlaunað uppljóstrarann Bradley Birkenfeld um 104 milljónir Bandaríkjadollara, eða sem nemur 12,5 milljörðum íslenskra króna. Birkenfeld er fyrrverandi starfsmaður UBS-bankans, en hann upplýsti bandarísk yfirvöld um skattasvik svissneskra banka. Er talið að þetta sé hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir uppljóstrun, en málið leiddi til þess að UBS-bankinn þurfti að greiða 780 milljónir Bandaríkjadollara í sektir.
Samkvæmt bandarískum samtökum sem fylgjast með og aðstoða uppljóstrara hafa 35 þúsund skattgreiðendur stigið fram eftir að málið komst í kastljósið og nýtt sér leið stjórnvalda sem býður sakauppgjöf, komi einstaklingar heim með fjármuni og greiði skatta í Bandaríkjunum í stað þess að yfirvöld þurfi að rannsaka og eltast við brotamenn sem hafa svikið af skattinum í gegnum skattaskjól. Hafa safnast 5 milljarðar dollara í þessum aðgerðum.
„Uppljóstrun Birkenfelds þvingaði yfirvöld í Sviss einnig til að breyta skattasamningi sínum við Bandaríkin, en það olli því að UBS þurfti að gefa upp nöfn 4.900 bandarískra skattgreiðenda sem áttu reikninga í skattaskjólum. Nú er verið að rannsaka þessa skattgreiðendur og lögsækja þá,“ sagði í tilkynningu frá stofnuninni.
Ástæða þessarar stóru greiðslu til Birkenfeld eru lög í Bandaríkjunum sem segja að allt að 30% af þeim upphæðum sem safnast vegna uppljóstrana geti gengið til uppljóstrarans sjálfs. Lögfræðingar hans voru ánægðir með niðurstöðuna og sögðu að dagurinn í dag væri góður dagur fyrir uppljóstrara, Bandaríkjamenn og alla aðra en stórtæka skattsvikara. Þess má geta að upphæðin telst sem tekjur og er því skattskyld.