Fyrirtækið Icelandic Water Holdings, sem er í eigu athafnamannsins Jóns Ólafssonar, hefur tilkynnt nýja hönnun á Iceland Glacial-flöskunum. Segir Jón að nýja útlitið eigi að styrkja ímynd vörunnar sem gæðavöru og hjálpa til við sölu á helstu markaðstöðum fyrirtækisins. „Umbúðirnar eru heppilegri fyrir hótel, klúbba og veitingastaði,“ segir hann, en það eru aðalsölustaðir vatnsins.
Flaskan sjálf mun verða óbreytt, en miðinn og vörumerkið munu breytast. Segir Jón að með breytingunni sé áherslan sett á að vatnið komi frá Íslandi og að viðskiptavinurinn geti alltaf treyst því þegar hann kaupi það. Auk þess verður tappinn svartur, en áður var hann blár. Mynd af Íslandi mun prýða flöskuna og nýtt letur á að vitna til fornrar menningar landsins, en með nýstárlegri nálgun. Flöskurnar verða kynntar í Bandaríkjunum í dag, en nýja útlitið mun sjást í búðum hérlendis um og eftir miðjan mánuðinn og segir Jón að gömlu flöskurnar verði alveg horfnar úr hillum hérlendis og erlendis um áramótin.
Um leið og útlitið er kynnt verður nýtt slagorð tekið upp, en það er „Source of an epic life“ eða „uppspretta mikilfenglegs lífs“. Segir Jón að slagorðið verði í framhaldinu notað í tengslum við auglýsingaherferð sem farið verði í til að kynna vöruna betur. Helstu markaðssvæði fyrirtækisins eru að hans sögn, auk Bandaríkjanna, Kanada og Rússland, en einnig sé Asíumarkaðurinn að opnast með samningum í Kína og Singapúr.
Jón segir að lokum að búast megi við fleiri vöruliðum frá Iceland Glacial á næstu mánuðum, en vill þó ekki gefa upp nákvæmlega hvernig drykkir það verða.