Ósammála dómi héraðsdóms

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.
Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Fyrirtækið Samvirkni ehf. hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það lýsir sig ósammála niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands vestra í dag að sýkna Byggðastofnun í máli sem fyrirtækið höfðaði gegn stofnuninni vegna lögmætis láns í erlendri mynt.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að umrætt lán sem tekið var í febrúar 2008, og var upphæð 27 milljónir króna, hafi ekki verið gengistryggt lán heldur lán í erlendri mynt og þar með lögmætt lán.

Samvirkni hafnar því og bendir á að Byggðastofnun hafi boðið fyrirtækinu tvo lánakosti. Annað hvort verðtryggt lán miðað við vísitölu neysluverðs eða gengistryggt lán miðað við þrjár tilteknar erlendar myntir.

Fram kemur að Samvirkni hafi óskað eftir gengistryggðu láni tengdu eingöngu við japönsk jen og hafi ennfremur aldrei fengið nein japönsk jen í hendurnar frá Byggðastofnun vegna lánsins.

Einnig er vísað til bréfaskipta við Byggðastofnun í lok árs 2008 þar sem óskað er staðfestingar á skilningi lánveitingarinnar. Þar komi fram að um 27 milljón krónur sé að ræða og 27 milljónir króna til viðbótar enda hafi þá gengi jensins tvöfaldast miðað við krónuna.

„Fyrir lántökuna lá því alltaf fyrir að lánið yrði tekið í íslenskum krónum. Þann skilning á efni skuldabréfsins staðfestu aðilar að frumkvæði Byggðastofnunar í kjölfar lánveitingarinnar.  Til þessara mikilsverðu atriða horfir Héraðsdómur þó ekki,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að niðurstaða héraðsdóms geti haft miklar afleiðingar fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem hafi tekið sambærileg lán hjá Byggðastofnun. Búsetugrundvöllur heilu byggðalaganna kunni að vera í hættu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðuna.

„Telur félagið að önnur fyrirtæki á landsbyggðinni sem fengið hafa sambærileg lán þurfi nú að íhuga stöðu sína mjög vel en niðurstaðan gæti þýtt hrun atvinnurekstrar utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkt væri augljóslega í skýrri andstöðu við tilgang og yfirlýsta stefnu Byggðastofnunar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK