Sex lykilstjórnendur Eimskips fengu í ágúst kauprétt að 0,9% hlut í fyrirtækinu. Fyrir áttu þeir kauprétt að 3,5% og því eiga þeir rétt á að kaupa 4,4% hlut.
Markaðsvirði kaupréttarins er 1,9 milljarðar króna, miðað við viðskipti sem áttu sér stað í sumar. Þeir eiga rétt á að kaupa bréfin fyrir lægri fjárhæð, samkvæmt samningnum.
Lykilstjórnendurnir fengu einnig kauprétti árin 2010 og 2011 en mega ekki nýta hann fyrr en eftir þrjú ár. Þetta þýðir að það styttist í að þeir megi leysa út kaupréttinn sem gerður var árið 2010. Markaðsvirði þess hlutar er 763 milljónir króna en þeim býðst að kaupa bréfin á fimm hundruð milljónir. Hagnaðurinn næmi því 264 milljónum króna.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Bragi Ragnarsson, stjórnarformaður Eimskips, að með þessu sé verið að tvinna saman hagsmuni stjórnenda og hluthafa. Hann áréttar að þeir verði að borga fyrir hlutabréfin.