Sú ólga sem skapaðist vegna fyrirhugaðra launahækkana forstjóra Landspítalans er lýsandi fyrir áskoranir sem fyrirtæki og stofnanir standa frammi fyrir í starfsmannamálum að sögn Paul Sparrows, prófessors í mannauðsmálum, hann segir varasamt að leggja ofuráherslu á stjórnendur og stjörnustarfsmenn.
Sparrow, sem er gestakennari við meistaranám viðskiptadeildar HR, segir óumflýjanlegt að sumir einstaklingar búi yfir hæfni eða tengingum sem geri þá verðmæta og því sé hagsmunamál að laða slíkt fólk að og forðast að missa það.
„En forðast þarf að komast í þá aðstöðu að verða of háður einstaklingum, nauðsynlegt er að byggja upp hóp af fólki sem tryggir að ef einhver yfirgefur vinnustaðinn komi það ekki niður á frammistöðunni og þeim sem eiga hagsmuna að gæta.“