Upptaka evru er ekki tímabær, en það er ekki hægt að útiloka hana um alla framtíð. Þetta sagði Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, á fundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins í morgun.
„Það er alveg ljóst í mínum huga að íslenska krónan hefur bjargað okkur frá langvarandi erfiðleikum og gert okkur kleift að jafna okkur á bankakreppu á miklu skemmri tíma en aðrir í sömu stöðu,“ sagði Katrín.
Katrín sagði að hágengisstefna hefði farið illa með atvinnulífið. Tekjur útflutningsatvinnuvega hefðu dregist saman. Fyrirtækin hefðu hins vegar fjárfest mikið á þessum tíma og safnað skuldum. Með falli krónunnar hefðu erlendar skuldir hækkað mikið og eigið fé fyrirtækjanna horfið. Með falli krónunnar hefðu tekjur fyrirtækjanna aukist og þeim hefðu þannig verið skapaðar forsendur til að takast á við breytta stöðu. Þetta hefði gert fyrirtækjunum fært að vinna nýja markaði og borga niður skuldir.
Katrín sagði að það væri engin ástæða fyrir Íslendinga að flýta sér að gera breytingar í gjaldmiðlamálum. Það væru næg verkefni í efnahagsmálum heima fyrir. Við þyrftum að ná tökum á ríkisútgjöldum og lækka skuldir. Þar að auki uppfylltum við ekki Maastricht-skilyrðin, svo það væri tómt mál að taka upp evru við núverandi aðstæður. Katrín sagðist hins vegar ekki vilja útiloka upptöku evru um alla framtíð.