Vill taka upp fastgengisstefnu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Rax

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vill að tekin verði upp fastgengisstefna hér á landi sem allra fyrst. Reynslan af fljótandi gengi krónu sé slæm og engin ástæða til að ætla að reynsla af slíkri stefnu verði betri í framtíðinni.

Gylfi sagði þetta á morgunverðarfundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins þar sem fjallað var um evruna. Gylfi sagði að tölur sýndu að okkur hefði gengið betur að stýra efnahagsmálum á níunda áratugnum þegar gengi krónunnar var fast. Sveiflur í gengi krónunnar hefðu aukist til mikilla muna eftir að tekið var upp flotgengi árið 2001. Gengið hefði sveiflast vel yfir 100% fyrst á eftir. Á tímabilinu 2001 til júní 2008, áður en gengi krónunnar hrapaði, hefði gengið sveiflast um 58%.

Gylfi sagði að oft hefði verið talað um kosti krónunnar til sveiflujöfnunar og að krónan hefði eftir hrun átt mikinn þátt í að koma efnahagslífinu á skrið að nýju og þá sérstaklega atvinnulífinu. Í þessari umræðu gleymdist að minnast á slæm áhrif hágengisstefnunnar á atvinnulífið fyrir hrun. Þá hefðu mörg störf á Íslandi tapast vegna hás gengis krónunnar. Gylfi sagði að þegar lögð væru saman slæm áhrif af háu gengi og jákvæð áhrif af lágu gengi á krepputímum væri heildarútkoman ekki jákvæð.

Gylfi sagði að fyrir launafólk væri augljóst að áhrifin væru neikvæð. Almenningur á Íslandi þyrfti að búa við 7% hærri vexti vegna krónunnar en launafólk í evrulöndunum. Miklar sveiflur á gengi krónunnar stuðluðu að verðbólgu með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun. Hrun á gengi krónunnar árið 2008 hefði augljóslega rýrt kjör almennings. Auk þess hefðu erlendar skuldir fyrirtækjanna tvöfaldast og eigið fé þeirra gufað upp á örskömmum tíma.

Gylfi sagði að við ættum þegar í stað að taka upp fastgengisstefnu svipaða þeirri og við hefðum notast við á níunda áratugnum. Ef þjóðin hafnaði aðild að Evrópusambandinu og þar með upptöku evru yrðum við að notast við krónu áfram um sinn og hann sæi ekki að hægt yrði að setja krónuna á flot að nýju. Gylfi sagði að fastgengisstefna þýddi að við þyrftum að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hinar Norðurlandaþjóðirnar og slík stefna kallaði einnig á endurskoðun á EES-samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK