Samtök evrópskra flugfélaga hafa útnefnt norska flugfélagið Widerøe, sem sérhæfir sig í innanlandsflugi í Noregi, besta flugfélag Evrópu ársins 2012. Verðlaunin voru fyrst afhent árið 1991 og hafa verið veitt árlega síðan þá.
Lars Kobberstad, forstjóri Widerøe, sagði í fréttatilkynningu að útnefningin væri mikill heiður fyrir lítið flugfélag og viðurkenning á því mikla starfi sem starfsfólk flugfélagsins hefði innt af hendi. Á heimasíðu Widerøe kemur fram að flugfélagið hafi áður lent í öðru og þriðja sæti í vali dómnefndar en að þetta væri í fyrsta sinn sem það bæri sigur úr býtum.
Dómnefndin sem veitti verðlaunin sagði að frammistaða Widerøe væri merkilega fyrirsjáanleg þó að flugfélagið starfaði í ófyrirsjáanlegum aðstæðum.