Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) mun að líkindum lækka horfur sínar fyrir hagvöxt á heimsvísu í næsta mánuði er hann birtir spár sínar um horfur í hagkerfinu.
Christine Lagarde, forstjóri IMF, sagði í Tókýó í dag, að hagvöxtur yrði að líkindum eitthvað minni árið 2013 en áður hefur verið gert ráð fyrir.
Þar inn í spiluðu mest vandamál á evrusvæðinu og áhyggjur af efnahagsþróun í Bandaríkjunum og hversu ríkt hún stæði eða félli með tiltrú fjárfesta.
Lagarde varaði einnig við því, að hægja myndi á hagkerfi þróunarríkja sem undanfarið hafa styrkt hagvöxt á heimsvísu.
Í júlí í sumar lækkaði IMF hagvaxtarspár sínar fyrir heimsbyggðina 2013 í 3,9%. Og nú er útlit fyrir að þetta hlutfall lækki ennfremur í október.