Fyrsti fundur vinnuhóps íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með þátttöku Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um afnám gjaldeyrishafta fór fram í Reykjavík 20. og 21. september.
Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu efnahags- og fjármálaráðuneytisins, er formaður hópsins. Auk hans sitja í hópnum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Í fréttatilkynningu kemur fram að hópurinn var skipaður fyrr á þessu ári í ljósi þeirra áskorana sem afnám gjaldeyrishafta felur í sér vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu og skuldbindinga vegna EES-samningsins. Hópnum er ætlað að meta stöðu afnámsáætlunarinnar og möguleg næstu skref í ljósi áætlunar stjórnvalda þar um á grundvelli sameiginlegrar sýnar um áskoranir í ferlinu.
Auk funda með sérfræðingum Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu á fund hópsins fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráðs, Alþýðusambandsins, kröfuhafa gömlu bankanna, háskólamanna auk nefndar um afnám hafta sem skipuð er fulltrúum stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Stefnt er að því að hópurinn skili áfangaskýrslu fyrir árslok. Að því loknu verður tekin afstaða til áframhaldandi vinnu hópsins.