Rekjanlegt lambakjöt að austan

Þorsteinn Bergsson og Soffía Ingvarsdóttir, ábúendur á Unaósi
Þorsteinn Bergsson og Soffía Ingvarsdóttir, ábúendur á Unaósi Austurlamb

Mikil vakning hefur verið hérlendis, sem annars staðar í heiminum, um rekjanleika matvöru og neytendur virðast í síauknum mæli vilja fá nákvæmari upplýsingar eiginleika og meðferð hennar. Þetta er ekki ósvipað því þegar vínunnendur vilja vita hvaðan vínið sé, hvaða þrúga er notuð við bruggunina, hvort það hafi mikla fyllingu og sé þurrt eða ferskt. Á Austfjörðum er rekið félag bænda sem hefur svipaða sýn á lambakjötið og vill bæði fræða neytendur um mismunandi eiginleika lambakjöts og bjóða þeim að kaupa nákvæmlega það kjöt sem þeir vilja, eftir því hversu mikil vöðvafylling eða fituhlutfall sé. 

Austurlamb hóf göngu sína fyrir um 9 árum og þar er lögð áhersla á að allt kjöt sé rekjanlegt til býlis, skrokkar eru valdir í sláturhús með tilliti til þyngdar, vöðvafyllingar og fituhulu og það er tryggt að skrokkar hanga alltaf í 2-3 daga fyrir frystingu til að auka bragðgæði og meyrni. Fjöldi bæja í félaginu hefur sveiflast nokkuð, en í dag eru eru þeir 6 sem setja kjötið til vinnslu hjá Kjötvinnslunni Snæfelli á Egilsstöðum.

Sigurjón Bjarnason, umsjónarmaður Austurlambs, segir í viðtali við mbl.is að fólk leiti „að kjöti frá bændum sem þeir þekkja, frá svæði sem þeir þekkja og mismunandi kjöti eftir því hvort það kemur af fjalli, láglendi eða úr strandbeit“. Neytandinn fær einnig upplýsingar um af hvað fjárstofni lambið er, hver fóðrun dýrsins var fyrir slátrun. Þetta segir Sigurjón ekki mögulegt að fá hjá stórframleiðendum þar sem lambalæri frá sama framleiðanda geti til dæmis verið í fituflokki 1 eða 4, allt eftir því hvaða pakka þú kaupir.

Aðspurður hvort ekki sé nauðsyn á að fara að halda námskeið, ekki ólík vínnámskeiðum, segir Sigurjón það góða hugmynd til að kynna fyrir fólki mismunandi kjöt eftir svæðum og eiginleikum. Nefnir hann þar til dæmis alþjóðlegt flokkunarkerfi yfir vöðvafyllingu og fitustig sem dæmi um eitthvað sem þyrfti að fræða neytendur betur um, en það skipti miklu máli hvaða kjöt sé valið eftir því hvert tilefnið sé, þ.e. hvort verið sé að leita að grillkjöti eða steikum. 

Þorsteinn Bergsson, bóndi á Unaósi, er einn af félögum í Austurlambi og líklega helst þekktur sem liðsmaður Fljótsdalshéraðs í spurningaþættinum Útsvari.  „Það skyldi þó ekki vera að íslenskir neytendur verði innan skamms ennþá meiri sérfræðingar í lambakjöti og verði farnir að velta því fyrir sér við matarborðið hvort beitt hafi verið á hálendi, kjarrlendi eða fjörugróður, eða hvort  beit fyrir slátrun hafi verið lyng, eða áborin há,“ segir Þorsteinn, en hann hefur verið með frá upphafi og hefur miklar vonir um að Íslendingar auki þekkingu sína á lambakjöti.

Hingað til hefur aðeins verið hægt að kaupa kjötið í gegnum heimasíðu Austurlambs, eða með að hafa samband beint við bændurna, en Sigurjón segir að nú sé að verða breyting þar á og að færa eigi söluna nær neytendanum. Náðst hafa samningar við Fiskibúðina á Höfðabakka og eftir miðjan október verður hægt að kaupa kjöt frá Austurlambi þar. 

Efnisorð: Austurlamb
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK