Félag undir stjórn Bakkavararbræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, BV Finance, kom með 463 milljónir króna til landsins í júlí eftir að hafa farið í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans sem gefur fjárfestum kost á að kaupa krónur með um 20% afslætti.
Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem bræðurnir koma með gjaldeyri til landsins. Félagið Korkur Invest, sem er í eigu bræðranna, gaf út 1,5 milljarða skuldabréf í maí á þessu ári eftir að hafa einnig nýtt sér fjárfestingaleiðina. Leiða má líkur að því að fjármagnið hafi verið nýtt til að kaupa 25% hlut í Bakkavör fyrir um fjóra milljarða króna en upplýst var um kaup bræðranna á stórum hlut í félaginu í sama mánuði.
Í umfjöllun um þessi mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag kemur meðal annars fram, að auk Bakkavarabræðra hafa félög í eigu Karls Wernerssonar og Róberts Wessmans komið með umtalsvert fjármagn til landsins það sem af er ári. Samtals hafa félög í eigu þessara fjárfesta - Bakkavarabræðra, Róberts og Karls - komið með vel á þriðja milljarð króna í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans.