Í lok árs 2009 samdi ríkisstjórnin við stóriðjufyrirtækin í landinu um greiðslu á nýjum raforkuskatti sem lagður er á hverja kílóvattsstund og um fyrirframgreiðslu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum fyrir árin 2013 til 2018. Var þetta gert með því „markmiði að stuðla að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á árunum 2010, 2011 og 2012, ásamt því að örva fjárfestingar hér á landi í því skyni að stuðla að atvinnusköpun og bættum hag þjóðarbúsins“, að því er fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu sem fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, Samtök atvinnulífsins og stóriðjufyrirtækin undirrituðu.
Í samningnum kom fram að orkuskatturinn væri tímabundinn og ætti að falla niður árið 2012. Fjárlög fyrir árið 2013 kveða aftur á móti um að orkuskatturinn sé enn til staðar og að hann muni skila ríkinu 2,3 til 2,6 milljörðum á ári til ársins 2018. Í samtali mbl.is við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samál, samtaka álframleiðenda á Íslandi, segir hann að álfyrirtækin séu afar ósátt við þessa einhliða ákvörðun og að þetta væri andstætt því samkomulagi sem væri í gildi.
Magnús Þór Ásmundsson, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að samningurinn hafi verið gerður þegar ríkissjóður stóð illa og að þetta hafi verið þátttaka fyrirtækjanna í að rétta efnahaginn við, en að skatturinn hafi átt að vera tímabundinn. „Árið 2009 er gerður samningur milli stjórnvalda og fyrirtækjanna í orkufrekum iðnaði um tímabundinn raforkuskatt og fyrirframgreiðslur á tekjuskatti. Það er skýrt í samkomulaginu að í því var sólarlagsákvæði árið 2012. Þetta var gert í ljósi bágrar stöðu ríkissjóðs á þeim tíma og átti að vera þátttaka þessara fyrirtækja í að rétta efnahaginn svolítið af. Þetta mun skila ríkissjóði á þessu tímabili um 6,6 milljörðum króna.“
Segir Magnús að stóriðjufyrirtækin hafi hingað til staðið við sína hlið samningsins, en að með framlengingu skattsins sé ríkisstjórnin að brjóta sinn hluta. „Nú er búið að setja inn í fjárlög fyrir árið 2013 framlengingu á raforkuskatti og ótímabundna framlengingu, þ.e. það er verið að setja raforkuskattinn varanlega á. Það teljum við vera skýlaust brot á þessu samkomulagi sem gert var við okkur og við höfum staðið við á alla lund. Þar fyrir utan teljum við hér hjá Alcoa þetta vera brot á fjárfestingarsamningi við okkur að verið sé að leggja sérstakan skatt á fyrirtækið.“
Aðspurður hverskonar brot hann ætti við sagði Magnús að fyrirtækið hefði gert fjárfestingarsamning við ríkisstjórnina þegar það kom til landsins og að þar hefði meðal annars komið fram að það væri brot á samningnum ef lagður væri skattur á fyrirtækið sem ekki sé lagður á almennt í landinu. Segir hann að árið 2009 hafi aftur á móti verið samþykkt að semja sérstaklega við stjórnvöld um raforkuskattinn á stóriðjuna í kjölfar aðstæðna á þeim tíma, en að fjárfestingasamningurinn standi enn.
Álfyrirtækin fengu veður af því fyrr á árinu að til stæði að framlengja skattinn og hafa síðan þá, í gegnum Samál, félag álfyrirtækja á Íslandi, rætt við fjármálaráðherra, komið fyrir þingnefnd og kynnt afstöðu sína og sent öllum þingmönnum bréf og segir Magnús að álfyrirtækin muni áfram kynna þessi sjónarmið fyrir þingmönnum og ráðherrum.
Aðspurður hvort fyrirtækið sé að íhuga að fara dómstólaleiðina ef komi til þess að skatturinn verði framlengdur segir Magnús ekki tímabært að ræða það ennþá. Hann segir þó að fyrirtækið muni fá lögfræðilegt álit á framkvæmd fjárfestingasarmningsins, enda sé eðlilegt að báðir aðilar standi við hann.
Í pósti sem mbl.is hefur undir höndum og sendur var á alla þingmenn kemur fram að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra hafi árið 2010 staðfest samkomulagið og ítrekað að ríkisstjórnin myndi standa við sinn hlut. Var þetta á sama tíma og leitað var til RioTintoAlcan í tengslum við lokaákvörðun um 60 milljarða fjárfestingaverkefni fyrirtækisins í Straumsvík sem ráðist hefur verið í.
Samál ítrekar í bréfinu einnig mikilvægi stöðugs skattaumhverfis fyrir eins stór fjárfestingaverkefni og álver eru og segir slæmt að erlendir fjárfestar geti ekki treyst á skriflega samninga við íslenska ríkið. „Samtök álframleiðenda á Íslandi lýsa miklum vonbrigðum með þessi áform stjórnvalda. Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir erlenda fjárfesta ef ekki er hægt að treysta því að hérlend stjórnvöld standi við skriflega samninga.“