Margar umsóknir hafa borist lífeyrissjóðunum síðustu daga um útgreiðslu séreignarsparnaðar, en frestur til að sækja um að sérstaka útgreiðslu rennur út á morgun, 30. september.
Eftir hrun ákvað Alþingi að heimila sjóðsfélögum að taka út það sem þeir hafa safnað saman í séreignasparnað. Heimildin var tímabundin en hefur nokkrum sinnum verið framlengd. Engin áform eru hins vegar hjá stjórnvöldum um að framlengja þessa heimild frekar.
Eigendur séreignasparnaðar hafa frá því að heimilað var að sækja um sérstaka útgreiðslu séreignasparnaðar í mars árið 2009 tekið út samtals um 75 milljarða króna.
Samkvæmt nýjum upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra var hæsta fjárhæðin tekin út á seinasta ári eða 23,6 milljarðar samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Á árinu 2009 var upphæðin 21,7 milljarðar og 16,5 milljarðar á árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er á fyrstu átta mánuðum þessa árs búið að sækja um úttekt séreignasparnaðar upp á samtals um 13 milljarða.