Atvinnuleysi jókst um 1,7% á Spáni í september og eru 4,7 milljónir Spánverja án atvinnu, samkvæmt upplýsingum frá vinnumálaráðuneytinu.
Spánverjum í atvinnuleit hefur fjölgað um 11,3% í september frá sama mánuði í fyrra. Atvinnuleysi jókst mest í þjónustu en dróst saman í landbúnaði, byggingariðnaði og iðnaði.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Spánar, sem notar önnur viðmið við útreikninga á atvinnuleysi en vinnumálaráðuneytið, var atvinnuleysið 24,63% í lok júní og er hvergi jafn mikið á Vesturlöndum. Samkvæmt opinberum spám er talið að atvinnuleysi verði 24,6% í lok árs en á því næsta fari það niður í 23,3%.
Samkvæmt rannsókn sem UGT-stéttarfélagið birti í gær hefur um það bil ein milljón Spánverja verið í atvinnuleit í meira en tvö ár eða 20,8% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Samkvæmt hagvaxtarspá ríkisstjórnar Spánar er gert ráð fyrir 1,5% samdrætti í ár og 0,5% samdrætti á næsta ári. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir 1,2% hagvexti árið 2014 og 1,9% árið 2015.