Íslendingar eru langt komnir með að laga fjarskiptaumhverfi sitt að lögum og regluverki ESB og í samanburði við ESB-löndin og önnur lönd í stækkunarferlinu kemur Ísland vel út á nær öllum sviðum í nýrri skýrslu sem Evrópusambandið lét vinna um stöðu fjarskipta og upplýsingatækni í þeim löndum sem nú teljast taka þátt í stækkunarferli Evrópusambandsins.
Á vef Póst- og fjarskiptastofnunarinnar kemur fram að skýrslan var unnin af alþjóðlega rannsóknarfyrirtækinu Cullen International og er hluti af þriggja ára verkefni (2011 – 2013) sem fyrirtækið vinnur fyrir ESB. Þessi skýrsla er önnur í röðinni af fjórum slíkum skýrslum sem áætlað er að gefnar verði út á þeim þremur árum sem verkefnið stendur, þ.e. til 2013.
Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir stöðu hinna ýmsu þátta fjarskipta og upplýsingatækni í löndunum sem fjallað er um og samanburð við löndin innan ESB, auk þess sem tilhögun eftirlits og staða eftirlitsstofnana er skoðuð.
Í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn þess að eftirlitsstofnanir hafi fjárhagslegt sjálfstæði og valdheimildir til að fylgja eftirlitshlutverki sínu eftir. Varðandi Ísland er sérstaklega bent á að styrkja þurfi þessa tvo þætti hjá eftirlitsstofnuninni, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun.