Spölur skuldlaus árið 2018

Spölur rekur Hvalfjarðargöng.
Spölur rekur Hvalfjarðargöng. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt stefnir í að Spölur verði orðinn skuldlaus árið 2018. Félagið greiddi fyrir helgina 656 milljónir í afborgun af láni sem tekið var 1998. Félagið hefur alltaf staðið í skilum. 

Bandaríska líftryggingafélagið John Hancock Mutual Life Insurance Inc. og 15 íslenskir lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf og fjármögnuðu Hvalfjarðargöngin til langs tíma, eftir að framkvæmdum lauk og göngin höfðu verið opnuð fyrir umferð sumarið 1998. Í samningum var kveðið á um að Spölur skyldi borga af lánunum árlega til 2018. Þá ætti félagið að vera orðið skuldlaust og í kjölfarið myndi það afhenda íslenska ríkinu umferðarmannvirkið til eignar endurgjaldslaust.

Í frétt frá Speli segir að John Hancock hafi viljað að greitt yrði af láninu í september, eftir sumarumferðina með tilheyrandi fjárstreymi inn á bankareikning Spalar. Þannig kom það sem sagt til að tími „stóru greiðslunnar“ var ákveðinn í septembermánuði. Það skyldi taka 20 ár að gera upp við lánveitendur Spalar með fyrstu afborgun í september 1999 og þeirri síðustu í september 2018.

Þetta gekk eftir og Spölur hefur alltaf staðið í skilum á gjalddaga. Í ár var greiðsla nr. 14 af alls 20, 656 miljónir króna að meðtöldum vöxtum. Þar af fá lífeyrissjóðir tæplega 450 milljónir króna en Íslandsbanki liðlega 200 milljónir króna.

Losnaði við erlendu lánin árið 2005

Í ársbyrjun 2005 bauð Spölur út endurfjármögnun allra langtímalána sinna og samdi við Íslandsbanka, sem lægstbjóðanda, um að endurfjármagna öll innlend og erlend lán félagsins, alls 4,75 milljarða króna. Bankinn seldi fagfjárfestum (lífeyrissjóðum) skuldabréf fyrir 3 milljarða króna og lánaði Speli 1,75 milljarða króna. Spölur gerði að fullu upp við John Hancock annars vegar og við íslenska ríkið hins vegar.

Með endurfjármögnuninni var unnt að minnka vaxtakostnað Spalar verulega og létta jafnframt að miklu leyti af félaginu gengisáhættu sem fylgdi því að skulda í erlendum gjaldmiðlum en hafa tekjur í íslenskum krónum.

Eftir greiðsluna eru langtímaskuldir Spalar tæplega 3  milljarðar króna, þar af er skuld félagsins við lífeyrissjóði um 2,1 milljarður króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka