Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum kemur greiningu Íslandsbanka á óvart en deildin gerði ráð fyrir að þeir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur.
„ Við gerðum ráð fyrir því að Seðlabankinn myndi vilja bregðast við versnandi verbólguhorfum vegna gengislækkunar krónunnar. Frá síðustu vaxtaákvörðun, sem var hinn 22. ágúst síðastliðinn, hefur krónan veikst um ríflega 5%.
Í yfirlýsingu Seðlabankans segir hinsvegar að verðbólguhorfur hafi lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar. Í verðbólguspá bankans sem birt var samhliða vaxtákvörðuninni í ágúst var gert ráð fyrir að gengi krónunnar yrði um 150 kr. gagnvart evru út spátímann og gengisvísitalan um 210 stig. Miðað við þessi orð í yfirlýsingunni virðist þessi spá enn halda þrátt fyrir að gengisvísitalan sé nú tæplega 220 stig og gengi krónunnar gagnvart evru um 159 kr.
Miðað við þetta virðist Seðlabankinn ekki hafa miklar áhyggjur af gengislækkun krónunnar undanfarið og jafnvel reikna með að veikingin undanfarnar vikur muni ganga til baka. Skýtur því skökku við að tónninn í morgun sé mun harðari en áður en í yfirlýsingunni segir að „miðað við óbreyttar horfur um verðbólgu og efnahagsbata er líklegt að nafnvextir þurfi að hækka frekar á næstunni“.
Bæta þeir þar með um betur frá síðustu yfirlýsingum þar sem hefur verið látið nægja að segja; „Að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Greining Íslandsbanka segist vera á þeirri skoðun að vextir yrðu óbreyttir á þeim tveimur vaxtaákvörðunardögum sem eftir eru á árinu, en miðað við ákvörðun morgunsins og í ljósi þessara orða bankans er líklegt að þessi hækkun sem við spáðum að yrði í dag komi til framkvæmda í nóvember eða desember á þessu ári.