Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.
Daglánavextir bankans verða þá áfram 6,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 5,75%, hámarksvextir á 28 daga innistæðubréfum 5,5% og innlánsvextir 4,75%. Vextir Seðlabankans hækkuðu síðast í júní og hækkuðu þá um 0,25 prósentur.
„Vísbendingar eru um hægari bata innlendrar eftirspurnar en spáð var í ágúst. Hins vegar hefur heldur dregið úr áhættu vegna fjármálakreppunnar í Evrópu.
Verðbólga hefur verið nokkru minni en spáð var í ágúst, en á móti kemur að gengi krónunnar er lægra en reiknað var með í spánni og töluverð óvissa er um gengisþróun á næstunni. Verðbólguhorfur hafa því lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar. Verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði bankans, þótt þær hafi minnkað eitthvað á suma mælikvarða.
Laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hefur stutt við efnahagsbatann. Hækkun vaxta í maí og júní og hjöðnun verðbólgu hafa dregið umtalsvert úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, en miðað við óbreyttar horfur um verðbólgu og efnahagsbata er líklegt að nafnvextir þurfi að hækka frekar á næstunni,“ segir í tilkynningu frá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.