Enn vantar talsvert upp á að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi náð því sem þær voru fyrir hrun. Tekjur heimilanna jukust á síðasta ári, eftir að hafa dregist mikið saman 2009-2010. Eignatekjur heimilanna halda hins vegar áfram að lækka og eignaútgjöld sömuleiðis.
Hagstofa Íslands birti í morgun tölur um ráðstöfunartekjur heimilageirans á árinu 2011. Þessir útreikningar sýna hvað heimilin hafa haft í launatekjur, vaxtatekjur, barnabætur, húsaleigu o.s.frv. Einnig er gerð grein fyrir útgjöldum. Þetta er því eins konar rekstraruppgjör fyrir heimilin í landinu.
Tölurnar sýna vel hversu launatekjur heimilanna lækkuðu mikið eftir hrun, en frá 2008 til 2009 lækkuðu heildarlaunatekjur allra heimila í landinu um 59 milljarða eða um tæplega 7%. Launatekjurnar hækkuðu á árinu 2010 og enn meira í fyrra.
Heimilin hafa tekjur af fleiru en launatekjum. Eignatekjur voru fyrir hrun mjög miklar. Samtals námu eignatekjur 168 milljörðum árið 2008, en voru komnar niður í 46 milljarða í fyrra. Þar skiptir ekki síst máli lækkun á vöxtum, en vaxtatekjur heimilanna lækkuðu milli þessara ára úr 76 milljörðum í 19 milljarða. Arður af hlutabréfum fór úr 54 milljörðum í tæplega 14 milljarða. Þessi liður, eignatekjur, var enn að lækka á síðasta ári, þriðja árið í röð.
Annar stór liður í rekstri heimila eru tilfærslur, en sá liður hefur vaxið ár frá ári síðustu ár, ef árið 2010 er undanskilið, en þá lækkaði þessi liður örlítið. Tilfærslur eru greiðslur úr lífeyrissjóðum, greiðslur frá Tryggingastofnun, atvinnuleysisbætur, barnabætur, vaxtabætur, greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og fleira.
Lífeyrissjóðirnir greiddu 88 milljarða til heimilanna á síðasta ári sem er hækkun um 11 milljarða milli ára. Tryggingastofnun greiddi 59 milljarða sem er aukning um 7 milljarða frá árinu á undan. Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi 19 milljarða, örlítið minna en árið áður. 18 milljarðar voru greiddir í vaxtabætur sem er aukning um 7 milljarða. Fæðingarorlofssjóður greiddi 8 milljarða, en greiðslur hans hafa lækkað frá hruni.
Í uppgjöri Hagstofunnar er einnig gerð grein fyrir útgjöldum heimilanna. Það þarf ekki að koma á óvart að á sama tíma og eignatekjur heimilanna lækka lækka einnig eignaútgjöld heimilanna. Eignaútgjöld heimilanna voru 87 milljarðar í fyrra og lækka um 21 milljarða milli ára. Þar munar mest um lækkun vaxta. Heimilin greiddu 53 milljarða í vexti vegna íbúðakaupa í fyrra sem er lækkun um tæplega 7 milljarða milli ára. Heimilin greiddu 31 milljarð í vexti vegna annarra skulda í fyrra, sem er lækkun um 15 milljarða milli ára.
Heimilin fengu á síðasta ári 23,6 milljarða greidda vegna úttektar á sérstökum lífeyrissparnaði. Þessi greiðsla skiptir umtalsverðu máli þegar verið er að reikna út kaupmátt heimilanna. Þessi heimild til að greiða út séreignasparnað var hugsuð sem tímabundin aðgerð og nú hefur verið ákveðið að framlengja hana ekki.
Við uppgjör á rekstri fyrirtækja síðustu tvö ár hafa sum fyrirtæki sýnt mikinn hagnað, en þegar rýnt er í tölurnar sést að hagnaðurinn er að stórum hluta til kominn vegna afskrifta skulda. Sú spurning vaknar hvort afskriftir á skuldum heimilanna komi ekki fram í þessum útreikningum Hagstofunnar. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eru afskriftir lána ekki teknar inn í þetta dæmi. Hins vegar er Hagstofan að safna saman gögnum um afskriftir heimilanna og mun síðar gera grein fyrir því hvernig þær hafa áhrif á bókhald heimilanna.
Ráðstöfunartekjur heimilanna hækkuðu árið 2011 um 9,6% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,3% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 5,1%.