Leiðir til að gæða dauðyflislegt hagkerfi heimsins lífi og hjálpa fátækum ríkjum að verjast fjármálaáföllum er meginviðfangsefni fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Tókýó í þessari viku.
Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kynnt var í gær, segir að evrukreppan ýti undir fjárhagslegan óstöðugleika í heiminum og ástæða sé til að óttast að fé á lánsmarkaði þurrkist upp á ný vegna hennar. Umbótaáætlunum evruríkjanna í bankamálum sé ábótavant og hætt sé við að á bresti fjármagnsflótti.
Þá birti sjóðurinn spá um hagvaxtarhorfur í heiminum í fyrradag, sem ber vitni aukinni svartsýni, að því er fram kemur í baksviðsgrein um þetta mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Samkvæmt spánni verður hagvöxtur í heiminum aðeins 3,3% á þessu ári og 3,6% á því næsta. Í júlí spáði bankinn 3,6% hagvexti í heiminum á þessu ári og 3,9% á því næsta.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að í þessari spá sé gert ráð fyrir því að leiðtogar Evrópu nái tökum á evruvandanum og bandarískum stjórnmálamönnum takist að vinda ofan af harkalegum niðurskurði og skattahækkunum, sem taka eiga gildi eftir áramót og líkt hefur verið við eitraða pillu, sem aldrei hafi verið ætlunin að gleypa.