Nauðsynlegt að vekja áhuga kvenna

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fjárfestir og framkvæmdastjóri Pizza Hut á fundinum …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fjárfestir og framkvæmdastjóri Pizza Hut á fundinum í Turninum við Smáratorg í morgun Ómar Óskarsson

Almenningur er brenndur og með efasemdir um hlutabréf eftir efnahagshrunið en það skiptir samt miklu máli að hann komi aftur að borðinu og honum sé ekki eingöngu stjórnað af fámennum fagfjárfestahópi. Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fjárfestir og framkvæmdastjóri Pizza Hut, en hún telur að besta leiðin til þess sé að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja. Einnig telur hún nauðsynlegt að koma í veg fyrir ofurlaun stjórnenda og leggur í stað þess áherslu á að peningurinn sé nýttur í uppbyggingu fyrirtækisins og arðgreiðslu til bæði fjárfesta og stjórnenda, eigi þeir hlut í félaginu.

Nauðsynlegt að vekja áhuga kvenna á hlutabréfum

Á fundi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallarinnar og Deloitte um tækifæri á virkum verðbréfamarkaði í morgun sagði Þórdís að það væri sláandi hversu konur væru fjarlægari hlutabréfamarkaðinum en karlar. Nefndi hún sem dæmi könnun MMR frá 2011 sem sýndi fram á að aðeins 89% einstaklinga myndu ekki íhuga hlutabréfakaup á næstu 12 mánuðum. Þar af væru rúmlega 95% kvenna sem sögðust ekki íhuga kaup.

Þetta sagði hún vera eina af ástæðum þess að erfiðlega gengi að vinna aftur upp traust á markaðinum eins og eðlilegt væri í þróuðum markaðsríkjum. Í samtali við mbl.is sagði hún nauðsynlegt að bregðast við með fjölgun kvenna í stjórn fyrirtækja. „Jöfn hlutföll í stjórnum og efsta lagi fyrirtækja er mjög mikilvægt því það endurspeglar samfélagið. Þeir sem koma að hlutabréfamarkaðinum í framtíðinni, fyrir utan fagfjárfesta, er almenningur. Þetta eru fjölskyldur sem sitja heima við eldhúsborðið og þurfa að ákveða hvort þær setja peninga í sparnað eða hlutabréfamarkað.“

Sagði hún að meðan afstaða helmings einstaklinga í samböndum væri mun neikvæðari gagnvart hlutabréfakaupum en hins helmingsins, væri venjulega farin varfærnislegri leiðin. Sá hluti sparnaðar fjölskyldna sem fer í hlutabréf er almennt skoðaður nánar, hvert fyrirtæki fyrir sig, og segir Þórdís að ef stjórnir þeirra séu einsleitar eigi þau minni möguleika á almennri hylli fjárfesta og segir hún því mikilvægt að sjá fjölbreytileika.

Almenningur brenndur

Aðspurð hvort almenningur sé ekki brenndur eftir hrunið og hvort breytingar í stjórnum fyrirtækja muni skipta fólk máli varðandi að færa sig aftur yfir á hlutabréfamarkaðinn segir Þórdís það rétt að almenningur sé með efasemdir, en að nauðsynlegt sé að hann komi aftur að borðinu, en rólega og ekki í neinni bólu. Segir hún það óeðlilegt fyrir hlutabréfamarkað hérlendis að vera einokaðan af fagfjárfestum, þar sem þeir séu fáir og lítill hreyfanleiki sé þá til staðar.

Segir hún að þar sem fagfjárfestarnir séu fáir sé pressan á þeim jafnmikil og á fyrirtækjunum sjálfum, um að ýta á um breytingar á stjórnum fyrirtækja. Þetta segir hún að eigi bæði við um kyn og aldur, en að nauðsynlegt sé einnig að fá yngri aðila inn í stjórnir.

Ofurlaun glórulaus

Í fyrirlestrinum kom hún einnig inn á ofurlaun stjórnenda og sagði það glórulaust að þeir hefðu tugi milljóna í laun á mánuði. „Það er fullt af fólki sem er tilbúið að gera þetta fyrir eðlileg há laun en ekki ofurlaun. Ég er ekki að segja að fólk eigi að vera á lélegum launum, en það er glórulaust að framkvæmdastjórar séu með 10 til 15 milljónir á mánuði í laun. Þessir fjármunir eiga að nýtast inn í fyrirtækið, þeir eiga að fara út í hagnaði og það eiga allir að njóta arðgreiðslnanna, bæði fjárfestarnir og þeir stjórnendur sem eiga í fyrirtækinu.“

Hún ítrekar þó að nauðsynlegt væri að leita leiða til að stjórnendur fengju að taka þátt í hag félagsins í heild, en þó án þess að það væri í formi óeðlilegrar niðurgreiðslu á hlutabréfum eða of hárra launa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK