Atvinnuleysi mælist 4,9%

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. Morgunblaðið/Eggert

Skráð atvinnuleysi í september var 4,9%, en að meðaltali voru 7.882 atvinnulausir í september og fækkaði atvinnulausum um 318 að meðaltali frá ágúst en vegna árstíðasveiflu í framboði vinnuafls (minna áætlað vinnuafl) er hlutfallstala skráðs atvinnuleysis 0,1 prósentustigi hærri. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Vinnumálastofnun. Í Evrópu er einungis minna atvinnuleysi í Austurríki meðal þeirra þjóða sem eru aðildarríki OECD.

Meðalatvinnuleysi tímabilið janúar til september á þessu ári var 5,9%, en 7,5% á sama tímabili 2011. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 9 að meðaltali og konum um 309. Atvinnulausum fækkaði um 282 á höfuðborgarsvæðinu en um 36 á landsbyggðinni.

Mun meira atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni

Atvinnuleysið var 5,6% á höfuðborgarsvæðinu og fór úr 5,5% í ágúst. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 3,7% og fór úr 3,5% í ágúst. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 7,8% og fór úr 7,6% í ágúst. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 1,3%. Atvinnuleysið var 4,4% meðal karla og fór úr 4,2% í ágúst og 5,4% meðal kvenna og minnkaði úr 5,5% í ágúst.

Alls voru 8.188 manns atvinnulausir í lok september. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.390. Fækkun atvinnulausra í lok septembermánaðar frá lokum ágúst nam 158. Um 29 fleiri karlar voru á skrá í lok september en 187 færri konur en í ágústlok. Á landsbyggðinni fjölgaði um 10 en fækkaði um 168 á höfuðborgarsvæðinu.

3.270 atvinnuleysir í meira en ár

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 4.883 og hefur fækkað um 420 frá lokum ágúst og eru um 60% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í september. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.270 í septemberlok og fækkaði um 138 frá lokum ágúst. Alls voru 1.089 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok september eða um 13,3% allra atvinnulausra. Í lok ágúst voru 1.129 á þessum aldri atvinnulausir og hefur þeim fækkað um 40 milli mánaða. Í lok september 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.774 og hefur því fækkað um 685 milli ára í þessum aldurshópi.

Alls voru 1.577 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok september, þar af 917 Pólverjar eða um 58% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í ýmiskonar þjónustu eða 224.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK