Föstudaginn 19. október heldur Eva Joly fyrirlestur í Silfurbergi í Hörpu í boði Samtaka fjárfesta og viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn, sem hefst kl. 12, fjallar um kreppuna í banka- og fjármálaheiminum. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku. Að loknu erindinu svarar Eva Joly fyrirspurnum.
Fundarstjóri er Bolli Héðinsson formaður Samtaka fjárfesta.
Eva Joly var sem kunnugt er ráðgjafi Sérstaks saksóknara í rannsókn bankahrunsins. Hún hætti störfum hér á landi í október 2010. Hún var frambjóðandi í frönsku forsetakosningunum fyrr á þessu ári.
Eva Joly er handhafi Sofie verðlaunanna 2012. Hún tók á móti verðlaununum við hátíðlega athöfn í Oslo í júní sl. Sofie verðlaunin voru stofnuð af rithöfundinum Jostein Garder og meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin eru ATTAC samtökin og blaðamaðurinn John Pilger. Í niðurstöðu dómnefndar kom fram að Eva Joly hljóti „Sofie verðlaunin 2012 fyrir baráttu sína gegn menningu græðginnar og afleiðingum hennar; félagslegum- og umhverfislegum vandamálum,“ segir í fréttatilkynningu.
Stofnun Evu Joly
Á síðasta ári var Stofnun Evu Joly sett á laggirnar á Íslandi. Markmið stofnunarinnar er að safna fé sem veitt verður til verkefna sem endurspegla markmið hennar um að efla baráttuna gegn spillingu og skattaskjólum, eflingu lýðræðis, opinnar stjórnsýslu og þátttöku almennings í stjórnmálum. Forstöðumaður Stofnunar Evu Joly er Jón Þórisson.
Heimasíða stofnunarinnar er: www.evajolyinstitute.org
Á síðasta ári kom út í Frakklandi skáldsaga eftir Evu Joly og Judith Perrignon. Augu Lír (Les Yeux de Lira Kazan) er spennusaga um efnahagsglæpi.
Laugardaginn 20. október kemur skáldsagan Augu Líru út hjá bókaforlaginu Skruddu, í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar.
Eva Joly áritar bókina í bókabúð Eymundsson, Austurstræti þennan dag, laugardaginn 20.október milli klukkan 14 og 16.
Skáldsagan Augu Líru hefur komið út m.a. í Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum.