Hætta er á að Íbúðalánasjóður geti ekki greitt af lánum á sama tíma og stjórnvöld draga það að fara í aðgerðir sem geta bjargað sjóðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt Bloomberg fréttastofunnar um stöðu Íbúðalánasjóðs. Líkt og fram hefur komið er eiginfjárhlutfall ÍLS nú 1,4% eftir að sjóðurinn þurfti að fara í verulegar afskriftir en á að vera að minnsta kosti 5% samkvæmt lögum.
Segir Oscar Heemskerk, sérfræðingur hjá matsfyrirtækinu Moody's að hætta á greiðslufalli sé fyrir hendi. Hins vegar sé ljóst að stjórnvöld vilji standa við skuldbindingar sínar og því gerði Moody's ráð fyrir því að lánveitendur sjóðsins fái skuld sína greidda.
Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Bloomberg að ríkissjóður verði að veita ÍLS aukið fé á næstu tveimur vikum. Mikilvægt sé að fjárhagsleg staða sjóðsins verði bætt á fjáraukalögum fyrir næsta ár. Hann segist sannfærður um að svo verði.