Íslenskt hugvit í reðurstækkunum fékk 1. verðlaun í samkeppni í Þýskalandi á dögunum fyrir Penomet-reðurstækkarann. Verðlaunin nefnast Venus „Best Male Enhancement Product 2012“ og eru veitt árlega í fyrir hjálpartæki í þessum flokki og tók Ágúst Smári Beaumont, framkvæmdastjóri UPL Distribution GmbH í Sviss, við verðlaununum.
„Við fórum í samstarf við bandarískt fyrirtæki í Kaliforníu sem heitir Penomet. Við vorum síðan tilnefnd til þessara verðlauna. Vorum reyndar tilnefnd til tvennra verðlauna og unnum. Þetta er auðvitað svakalega mikil viðurkenning fyrir okkur og allt okkar starfsfólk. Við erum ofboðslega stolt af þessu.
Þetta er mikil viðurkenning, sérstaklega þar sem við erum nýbyrjuð. Við höfum ekki undan að framleiða þar sem þetta er allt sett saman í höndunum og gert mjög smekklega. Við erum með 16 manns í vinnu og keyrt allan sólarhringinn og við náum ekki að setja saman nema 150 stykki á dag. Það þarf að ráða fleira starfsfólk og stækka,“ sagði Ágúst.
Hann segir Bandaríkin vera þeirra aðalmarkaðssvæði en að varan sé einnig seld nú í Kóreu, Singapúr, Ástralíu og í Bretlandi.
„Við höfum gert þetta áður með aðra vöru sem hét Bathmate (Baðfélaginn),“ segir Ágúst en Penomet-pumpan á að vera fullkomnari.
„Á Íslandi eru tvær græjur sem fólk með risvandamál getur fengið. Þetta hjálpar mun betur en aðrar græjur sem eru leyfðar af Tryggingastofnun í dag. Við erum að skoða það í samstarfi við AVK á Íslandi að koma þessu inn í kerfið heima. Þetta er auðvitað ekkert rosalega ódýr vara,“ segir Ágúst.
Hann segir Íslendinga mega búast við því á næstu dögum að geta keypt vöruna og er vefsíðan penomet.is nú í þýðingu.
„Varðandi fyrri vöruna sem við vorum að selja á Íslandi, Bathmate, þá var 1 af hverjum 28 íslenskum karlmönnum frá aldrinum 18 til 65 ára sem höfðu keypt sér pumpuna. Þetta var orðið eins og fótanuddtækið. En munurinn er sá að þetta er ekki í geymslunni. Þetta er notað dagsdaglega.
Svo er skemmtilegt að segja frá því að við höfum alltaf boðið endurgreiðslu, mánaðartryggingu, ef þú ert ekki ánægður með þetta og finnst þetta ekki vera að virka fyrir þig þá getur þú bara hringt og sagt að þú viljir senda þetta til baka. Miðað við síðustu tölur sem ég fékk frá AVK þá er búið að skila síðan 2008 tíu stykkjum af fleiri þúsundum. Það er vart hægt að mæla þetta í prósentum og þetta er ekki bara á Íslandi heldur í öllum þeim löndum sem við störfum í,“ segir Ágúst.
Ágúst leggur áherslu á að þessi vara tengist ekki klámi. „Það eru voða margir sem vilja taka hjálpartæki ástarlífisins og blanda því saman við dvd-klám. En við höfum alveg fastar reglur og seljum ekkert svoleiðis. Erum bara með hjálpartæki ástarlífsins,“ segir Ágúst.
Hann segir Penomet-pumpuna hafa komið til eftir gríðarlega margar ábendingar frá notendum Bathmate og að þeir hafi því sett verkfræðinga sína í að þróa nýja vöru.
„Bathmate og Penomet er sambærileg vara, en ekki eins. Munurinn er sá að þú getur skipt um múffuna neðan á. Ef þú kaupir stærsta pakkann þá getur þú keypt fimm pumpur í einni en hjá aðalsamkeppnisaðilanum okkar ertu fastur í einni stærð og styrkleika,“ segir Ágúst.
„Við ætlum síðan að fara í læknisfræðilega rannsókn á næsta ári og það verður að öllum líkindum gert í Sviss. Við erum að semja við tvo spítala um að taka þetta að sér. Gersamlega óháð rannsókn og við þurfum að borga brúsann, en ráðum náttúrlega ekki útkomunni,“ segir Ágúst að lokum.