Ef slitastjórnum þrotabúa Kaupþings og Glitnis tekst að klára nauðasamninga með þeim hætti sem stefnt er að, með því að gefa út ný verðbréf í erlendri mynt, þá gætu hinir erlendu eigendur, að stærstum hluta vogunarsjóðir, að öðru óbreyttu greitt sér út í kjölfarið um 78 milljarða króna arð úr Arion banka og Íslandsbanka.
Bankarnir myndu eftir sem áður uppfylla kröfu FME um 16% eiginfjárhlutfall.
Sú staðreynd að hlutfall erlendra krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings er hærra en áður var talið – 93% í stað 80% – þýðir að eignarhlutur kröfuhafa í Arion og Íslandsbanka verður í enn meira mæli í eigu erlendra aðila. Viðmælendur Morgunblaðsins segja hagsmuni vogunarsjóða vera þá að greiða sér út arð fremur en að selja eignarhluti sína.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að það sé mikill þrýstingur af hálfu vogunarsjóða að bankarnir greiði út arð til eigenda um leið og tækifæri gefst til. Ljóst þykir að arðgreiðslur upp á tugi milljarða, sem þyrfti að skipta í gjaldeyri, myndu setja mikinn þrýsting á gengi krónunnar.