Sjávarútvegurinn er besta dæmið um atvinnugrein hérlendis sem hefur tekist að ná fram mikilli framleiðni vinnuafls og fjárfestingar. Hagkvæmt fyrirkomulag fiskveiða og samkeppni á alþjóðamörkuðum hefur skipt sköpum í þeim efnum.
Þetta segir í skýrslu McKinsey, alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis um þær leiðir sem hægt er að fara til að skapa sjálfbæran hagvöxt á Íslandi til lengri tíma, sem fjallað er ítarlega um í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Skýrsluhöfundar benda á að frekari vöxtur í framleiðni í sjávarútvegi, drifinn áfram af aukinni fjárfestingu og innleiðingu nýrrar tækni, krefjist þess að atvinnugreinin búi við stöðugt og hagfellt rekstrarumhverfi.
Í skýrslu McKinsey er vakin athygli á því að hlutfall sjávarútvegs í vergri landsframleiðslu var um 11% á liðnu ári. Sjávarútvegsfyrirtæki sköpuðu jafnframt meira en fjórðung allra útflutningstekna og voru með um níu þúsund manns í vinnu. Í alþjóðlegum samanburði er ekkert ríki í heiminum sem stenst samanburð við íslenskan sjávarútveg þegar kemur að verðmætasköpun.