Methagnaður hjá Samherja

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs, …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs, taka á móti Baldvini NC 100 Skapti Hallgrímsson

Hagnaður Samherja nam 8,8 milljörðum árið 2011 og er um bestu afkomu í sögu samstæðunnar að ræða. Um er að ræða starfsemi í 11 löndum, en fyrirtækin gera upp í 8 mismunandi gjaldmiðlum. Rekstrartekjur Samherja og dótturfélaga voru á liðnu ári um 80 milljarðar króna, samanborið við tæpa 68 milljarða árið áður.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam 18,2 milljörðum króna, samanborið við 17,8 milljarða árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 11,1 milljarði og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins 8,8 milljarðar króna. Í tilkynningu frá félaginu segir að þetta sé þriðja árið í röð sem allar afkomueiningar samstæðunnar skila hagnaði.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar í lok ársins 2011 samtals 108,6 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar á sama tíma voru 71,2 milljarðar og bókfært eigið fé 37,4 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 34,5% í árslok.

Veltufjármunir námu 29,6 milljörðum króna og nettóskuldir samstæðunnar rúmlega 33 milljörðum króna. Í níu af þeim tíu löndum sem erlend dótturfélög Samherja starfa er reksturinn fjármagnaður hjá erlendum fjármálastofnunum. Skuldir samstæðunnar við íslenskar lánastofnanir námu samtals 46,5 milljörðum í lok árs 2011 en það sem af er árinu 2012 hafa þær verið greiddar niður um 6 milljarða króna.

„Samstæðan hefur ekkert nýtt lán tekið hjá íslenskum lánastofnunum síðustu ár, ef undan er skilin lántaka hjá Landsbanka Íslands vegna kaupa félagsins á Útgerðarfélagi Akureyringa sem nam 12,2 milljörðum króna. Samherji hefur hvorki fengið niðurfellingu né endurútreikning á nokkru láni. Við höfum ekki heldur farið fram á að lánaskilmálum nokkurs láns sem Samherji er með verði dæmdir ólöglegir. Að auki eru félög samstæðunnar með öll sín lán í skilum, nú sem ávallt áður, og hafa greitt lán sín hratt niður,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Þorsteinn er mjög ánægður með árangur ársins. „Ég get ekki annað en verið mjög ánægður með afkomu Samherja og erlendra dótturfélaga á árinu 2011. Félögin hafa sótt fram á mörgum sviðum og hefur starfsmönnum tekist afar vel að leysa þau krefjandi verkefni sem fylgdu auknum umsvifum á árinu 2011, með tilkomu ÚA og yfirtöku reksturs félaga í Frakklandi og á Spáni.“

Hann segir að þau verkefni sem félagið standi frammi fyrir í dag séu krefjandi og að brýnt sé að horfa til framtíðar „Ég hef ekki staðið frammi fyrir jafn krefjandi verkefni í rekstri Samherja síðastliðin 25 ár og nú. Efnahagsástandið í Evrópu veldur því að viðskiptavinir okkar hafa ekki jafn greiðan aðgang að fjármögnun og áður auk þess sem neytendur hafa snúið sér að ódýrari afurðum í einhverjum mæli.“ Telur Þorsteinn nauðsynlegt fyrir stjórnvöld hér heima og þá sem starfa í sjávarútvegi að standa saman og vinna sameiginlega að lausn þeirra verkefna sem framundan eru.

Í tilkynningunni kemur fram að Samherji hafi flutt til Íslands 5200 tonn af hráefni frá dótturfélögum sínum erlendis og þannig tryggt samfellda atvinnu í vinnslum félagsins á Eyjafjarðarsvæðinu. Það hafi leitt til þess að Atvinnutryggingasjóður hafi ekki þurft að greiða neinum starfsmanni í landvinnslu félagsins á Eyjafjarðarsvæðinu laun vegna hráefnisskorts.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja Skapti Hallgrímsson
Efnisorð: Samherji
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka