Sama hvaða leið Ísland ákveður að fara í gjaldmiðla- og peningamálum í náinni framtíð þá er eftir sem áður brýnt að leggja meiri áherslu á það um þessar mundir að búa svo um hnútana að hagstjórn og fjármálastefna hins opinbera verði bætt.
„Það er hollt hverri þjóð að hafa góðar húsreglur og fylgja þeim,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í fréttaskýringu um ráðstefnuna í Morgunblaðinu í dag. Um þetta voru flestir framsögumenn á fundi Arion banka um möguleika Íslands í gjaldmiðlamálum sammála.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri benti þó á að það sem fór úrskeiðis í aðdraganda bankahrunsins, ekki aðeins á Íslandi heldur líka erlendis, hafi einkum verið fjármálastöðugleikastefnan þar sem regluverki um banka og fjármálamarkaði var ábótavant. Því sé ekki nóg að horfa aðeins til hagstjórnar og ríkisfjármála í þessum efnum.
Fram kom í máli Más að það væri forgangsatriði til skemmri tíma að innleiða sérstakar varrúðarreglur, sem Seðlabankinn kynnti nýverið, sem myndi búa til betri ramma um krónuna til lengri tíma. Að fara slíka leið myndi einnig nýtast ef Ísland gengi í ESB og tæki upp evru.