Skattbyrði fer hækkandi

Meðalskattar á Íslandi hækkuðu um 0,7 prósentustig milli áranna 2010 og 2011 og voru 36% í fyrra. Þetta kemur fram í alþjóðlegum samanburði sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti í síðasta mánuði. Skattbyrði hefur hækkað á alla þrjá viðmiðunarhópa sem skoðaðir eru, en athygli vekur að tekjulægri hópar hérlendis virðast  taka á sig hlutfallslega mikla hækkun frá árinu 2009.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að árið 2011 hækkaði skatthlutfallið í 20 löndum en lækkaði eða hélst óbreytt í 9 löndum. Að meðaltali hækkaði hlutfallið um 0,2 prósentustig milli ára og nam 35,1%. Meðalhlutfallið hefur nú hækkað 
tvö ár í röð eftir að hafa lækkað nokkuð á árunum 2008 og 2009 í kjölfar alþjóðlega efnahagshrunsins. Hækkandi hlutfall síðustu tvö árin má fyrst og fremst rekja til  viðbragða stjórnvalda við efnahagshruninu enda hafa fjölmörg ríki gripið til skattahækkana samhliða almennum aðhaldsaðgerðum til að styrkja stöðu opinberra fjármála.

Norðurlöndin með hátt skattahlutfall

Á Íslandi var hlutfallið aðeins yfir meðaltali árið 2011 eða 36,0% og hækkaði um 0,7 prósentustig á milli ára. Ef litið er til þeirra landa sem Ísland ber sig helst saman við, einkum Norðurlandanna, er skatthlutfallið hér á landi lágt að því er fram kemur í tilkynningunni. Skatthlutfallið er 48,1% í Danmörku, 44,5% í Svíþjóð, 43,4% í Finnlandi og 43,2% í Noregi. Hlutfallið hækkaði á milli ára í öllum þessum löndum nema Svíþjóð þar sem það lækkaði um 1%. Skatthlutfallið á Íslandi er 7,0 prósentustigum undir meðaltali hinna Norðurlandanna og 2,7 prósentustigum undir meðaltali ríkja Evrópusambandsins.

Tekið er fram að einfaldur samanburður á skatthlutfallinu einu og sér getur verið varhugaverður þar sem mismunandi fyrirkomulag skatta, bóta og lífeyrismála getur gert hann ónákvæman. Auk þess er ekki tekið tillit til þátta á borð við umfang og gæði þeirrar opinberu þjónustu sem skatttekjur hins opinbera eru m.a. notaðar til að fjármagna.

Skattbyrði hefur hækkað á alla viðmiðunarhópa hérlendis

OECD skoðar einnig skattbyrði, en hún er reiknuð sem hlutfall skattgreiðslna og tekna launþega að teknu tilliti til bóta. Þannig sýnir skattbyrði hversu hátt hlutfall tekna launþegi greiðir í skatta.

Í ríkjum OECD hækkaði meðalskattbyrði mismunandi launþegahópa í 26 af 34 löndum árið 2011. Þar af hækkaði skattbyrðin einna mest í Lúxemborg, Portúgal og Slóvakíu á meðan hún lækkaði í Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi. Á Íslandi hækkaði skattbyrði allra hópa á milli ára (að teknu tilliti til barnabóta) en þó ívið minna hjá einhleypum en hjónum.

Skattbyrði einhleypra og barnlausra einstaklinga með meðaltekjur á Íslandi er undir meðaltali Norðurlandanna. Hún hefur þó hækkað frá árinu 2009 á meðan hún hefur lækkað eða lítið breyst á hinum Norðurlöndunum. Sú þróun á sér að hluta til skýringu í upptöku útvarpsgjalds hér á landi árið 2009 sem er lagt á einstaklinga með tekjur yfir skattleysismörkum að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Fjölskyldur undir meðaltekjum tekið á sig mesta hækkun

Skattbyrði einhleypra foreldra með tvö börn og með 67% af meðaltekjum og hjóna með tvö börn þar sem annað hefur meðaltekjur en hitt 67% af meðaltekjum hefur þó hækkað umtalsvert hérlendis á síðustu árum. 

Í tilkynningunni er vakin athygli á því að OECD tekur tillit til barnabóta í útreikningum sínum en ekki vaxta- og húsaleigubóta.

Skattbyrði barnlausra einstaklinga
Skattbyrði barnlausra einstaklinga Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skattbyrði einhleypra foreldra með 2 börn og 67% af meðaltekjum
Skattbyrði einhleypra foreldra með 2 börn og 67% af meðaltekjum Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skattbyrði hjóna með tvö börn þar sem annað hefur meðaltekjur …
Skattbyrði hjóna með tvö börn þar sem annað hefur meðaltekjur en hitt 67% af meðaltekjum Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Efnisorð: OECD skattar skattbyrði
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK